Lífríki Silungatjarnar, Krókatjarnar og Selvatns

Að beiðni Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis gerði Náttúrufræðistofa Kópavogs rannsókn á vistkerfi þriggja vatna í landi Mosfellsbæjar; Silungatjörn, Krókatjörn og Selvatni.  Rannsóknin náði til efna- og eðlisþátta, vatnagróðurs, smádýralífs og fiska.
Markmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lykilþætti í lífríki og efnabúskap vatnanna þriggja. Sýnataka og önnur vettvangsvinna fór fram dagana 23.–26. ágúst 2016. Alls fundust fjórar tegundir vatnaplantna í Silungatjörn og átta í Krókatjörn. Síkjamari var yfirgnæfandi tegund en heildargróðurþekja mældist að meðaltali 72% í báðum vötnunum. Í Selvatni fundust 10 tegundir vatnaplantna og var síkjamari enn algengastur en þekja var verulega minni en í hinum vötnunum eða 28% að meðaltali. Þetta stafar af því að lítinn sem engan gróður var að finna á þeim stöðvum sem voru á 8–20 m dýpi.
Mikið veiddist af hornsílum í öllum vötnunum og reyndust sílin í Silungatjörn sérstök að því leyti að á þau vantaði kviðgadda. Þessu fyrirbæri hefur verið lýst úr einu öðru vatni á landinu, Vífilsstaðavatni. Hvað laxfiska áhrærir þá varð ekki vart við laxfiska í Krókatjörn aðeins urriði veiddist í Silungatjörn og bleikja í Selvatni. Uppistaðan í fæðu bleikjunnar voru sviflæg krabbadýr en hjá urriðanum bar mest á hornsílum og vatnabobbum.
kviðgaddar_tvö síli.jpg
Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að vötnin eru ólík innbyrðis hvað varðar vatnsbúskap og tilvist og tegundasamsetningu laxfiska. Þá sker Selvatn sig frá hinum vötnunum hvað þéttleika og tegundasamsetningu smádýra varðar, enda stærst og langdýpst þeirra þriggja. Vatnsgæði eru mikil m.t.t. flestra þátta og ekkert bendir til að vötnin séu undir álagi vegna mengunar. Til að tryggja að svo verði til framtíðar þarf að gæta varúðar í umgengni á svæðinu og að auki má árétta að neðar á vatnasviðum umræddra vatna eru bæði fengsæl veiðisvæði og útivistarperlur.
Lífríki Silungatjarnar, Krókatjarnar og Selvatns árið 2016

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

06
apr

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR

Consent Management Platform by Real Cookie Banner