Svarta ekkjan dauð

21. febrúar 2003

Gæludýrið okkar sem undanfarna mánuði hefur vakið mikla athygli gesta, fannst dautt í búri sínu þegar að var komið nú í morgun. Dánarorsök er ókunn en vera má að elli kerling hafi komið henni á kné.

Undanfarna daga höfðum við orðið vör við nokkrar breytingar á atferli kóngulóarinnar. Hún virtist slöpp og fremur skeitingarlaus um umhverfi sitt. þrátt fyrir sjúkleikann var matarlystin í fínu lagi til síðasta dags og seinasta máltíð hennar var bjalla sem líktist litlum járnsmið. Þótti vel af sér vikið af ekkjunni að ráða niðurlögum bjöllunar, enda sú síðarnefnda brynvarin og gekk þar að auki ekki í vefinn, þannig að ekkjan þurfti að sitja fyrir henni á botni búrsins.

Svarta ekkjan hafði dvalið hjá okkur í rétta fimm mánuði. Hún var fullvaxin þegar hún kom og hefur því verið að lágmarki sjö mánaða gömul. Algengt er að þær verði um níu mánaða gamlar og því eru verulegar líkur á að andlát hennar hafi verið af eðlilegum orsökum, þ.e. háum aldri. Frekari upplýsingar um þessar merkilegu kóngulær má nálgast með því að smella á tengilinn hér að ofan.