Erindi um alaskalúpínu í Skaftafellsþjóðgarði

23. maí 2003

Síðasta fræðsluerindi HÍN fyrir næstu haustvertíð verður haldið mánudaginn 26. maí, kl. 20:30 í stofu 101, Lögbergi, Háskóla Íslands. Þá mun Þórunn Pétursdóttir, landfræðingur og meistaranemi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri flytja erindi sem hún nefnir „Útbreiðsla alaskalúpínu í Þjóðgarðinum í Skaftafelli“.

Í erindinu greinir Þórunn frá rannsóknaverkefni sínu þar sem hálfrar aldar útbreiðslusaga lúpínu í þjóðgarðinum var athuguð, m.a. með aðstoð loftmynda frá tímabilinu 1965 til 2000. Stærð Bæjarstaðarskógar var einnig metin í rannsókninni.

Í rannsókninni kemur m.a. fram að útbreiðsluhraði og útbreiðslumunstur lúpínu hefur breyst töluvert síðan henni var plantað fyrst ofan við Bæjarstaðaskóg. Aukin útbreiðsla lúpínunnar virðist einkum tengjast beitarfriðun á áttunda áratugnum og aurskriðum sem féllu á svæðinu 1982.

Rannsóknaniðurstöður Þórunnar nýtast vel til að vega og meta kosti og galla við notkun innfluttrar plöntutegundar til landgræðslu.

Aðgangur að fræðsluerindum HÍN er ókeypis og öllum heimill.