Hrognkelsi í sjóbúri

26. maí 2003

Um helgina barst okkur um tveggja ára gamalt hrognkelsaseiði. Virðist það una hag sínum hið besta í sjóbúrinu okkar.

Hrognkelsi eru sérkeninilegir fiskar, þéttvaxnir með kamb í stað bakugga og sogblöðku á kvið. Roð þeirra er mjög þykkt og kallast hvelja og er hún alsett broddum. Hrygnan kallast grásleppa en hængurinn rauðmagi.

Auk stóra seiðisins fengum við nokkuð af nýklöktum hrognkelsaseiðum en þau eru felugjörn auk þess að vera auðveld bráð sprettfiskanna og því var nokkrum þeirra komið fyrir í litlu hlífðarbúri ofaní sjóbúrinu.