Svarmi af Kóngasvarma

14. ágúst 2003

Töluvert virðist vera af stóru flækingsfiðrildi á landinu þessa dagana er nefnist Kóngasvarmi.

Kóngasvarminn (Agrius convolvuli) er útbreiddur um sunnanverða Evrópu, Asíu, Afríku og Ástralíu. Eru þessi fiðrildi árlegir gestir um norðanverða Evrópu og hér á landi berast fregnir af einu til tveimur á ári. Árið 1995 brá svo við að Náttúrufræðistofnun Íslands bárust 10 eintök, það sama virðist vera að gerast í ár og nú á þremur dögum hefur okkur á Náttúrufræðistofunni borist fjögur eintök fundin í Kópavogi og suður til Grindavíkur. Að auki hefur frést af þeim frá Þingeyri og Bolungavík og má lesa um það á síðu Náttúrustofu Vestfjarða.

Kóngasvarminn er eitt stærsta fiðrildi er finnst á íslandi og er hann einnig meðal öflugustu og hraðskreiðustu flugskordýra. Hann er töluvert sérhæfður í fæðuvali en hann lifir einkum á einni tegund blóma er nefnist akurklukka (Convolvulus arvensis). Sú planta mun ekki finnast í íslensku flórunni og því ekki miklar líkur á að Kóngasvarmi muni eiga framtíð fyrir sér sem íslenskt fiðrildi.