David Attenborough í Kópavogi

01. nóvember 2003

Næstkomandi fimmtudagskvöld 6. nóvember heldur hinn heimskunni sjónvarps- og náttúruvísindamaður David Attenborough fyrirlestur í Salnum í Tónlistarhúsi Kópavogs, sem fjallar um hvernig tækniframfarir hafa opnað heim náttúrunnar fyrir þeim sem vilja skoða hann náið og miðla til annarra.

Salurinn opnar klukkan 20:00 og hefst fyrirlesturinn kl. 20:30. Bókaútgáfan Iðunn og Endurmenntun Háskóla Íslands standa saman að fyrirlestrinum. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. David Attenborough er staddur hér á landi á vegum bókaútgáfunnar Iðunnar í tilefni af útgáfu á bók hans "Heimur spendýranna", sem kemur út þennan sama dag. Að fyrirlestrinum loknum áritar Attenborough bókina í glæsilegum húsakynnum Náttúrufræðistofu Kópavogs og Bókasafns Kópavogs og verður af því tilefni opið til kl 23:00. Bókin verður til sölu á staðnum á sérstökum vildakjörum :)

David.jpgSir David Attenborough er löngu heimskunnur fyrir sjónvarpsþætti og ritstörf um náttúruvísindi og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar. Hann hefur einstakt lag á að miðla þekkingu sinni af smitandi ástríðu svo úr verður fróðleikur og skemmtan sem styðst við einstakt myndefni.

Nú nýlega var sýnd þáttarröð sem fjallaði um spendýr og er henni nú fyglt eftir með útgáfu bókar, sem unnin er upp úr efni þáttanna. Í formála bókarinnar segir m.a: "Vegna skyldleikans við önnur spendýr eigum við auðvelt með að setja okkur í spor þeirra. Við horfum af skilningi á kúna sem hefur nýborinn kálf á spena, karlljónið sem hreykir sér letilega yfir ljónynjunum sínum, simpansana sem snyrta hver annan og meira að segja hvalinn sem sendir öðrum hvölum merki um óravíðáttur hafdjúpanna. Þetta er satt að segja svo auðvelt að okkur hættir til að halda að við skiljum önnur spendýr betur en við gerum í raun og veru. Markmið þessarar bókar er að kanna þau rök og þá þróun sem mótað hefur líkamsgerð spendýra síðustu hundrað milljón árin og efla þannig þennan eðlislæga skilning. Með því getum við áttað okkur á ótrúlegri hæfni og fjölbreytileika spendýranna, margslungnustu og fjölbreyttustu dýra á jarðríki."

Í tilefni af útkomu bókarinnar kemur David Attenborough til landsins og þann 6. október mun hann halda erindi í Salnum, Tónleikahúsi Kópavogs. Að því loknu mun hann svo árita bókina hér á Náttúrufræðistofunni. Salurinn opnar kl 20:00, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Bókin verður til sölu á staðnum.