Fullt út úr dyrum hjá Attenborough

07. nóvember 2003

Á sjötta hundrað manns hlýddu á fyrirlestur Sir David Attenborough í Salnum fimmtudaginn 6. nóv. og fjölmargir þurftu frá að hverfa.

Í fyrirlestrinum fjallaði Sir David um myndatökutækni við gerð náttúrulífsmynda. Þau eru mörg vandamálin sem þarf að leysa en einkum er varða birtu til myndatökunnar. Ýmis konar tækni hefur þróast sem gerir myndatöku mögulega við hinar erfiðustu aðstæður. Þetta hefur opnað mönnum nýjan heim sem ekki hefur verið hægt að nálgast fyrr, svo sem það hvernig kolibrifuglar beita vængjunum við fæðunám, hvernig sníkjuplöntur bera sig að við að leita að hentugum hýsli til að nærast á, eða hvernig leðurblökur hegða sér í vetrardvala inni í dimmum helli.

Að fyrirlestrinum loknum flutti Attenborough sig yfir í sýningarsal Náttúrufræðistofu Kópavogs og áritaði bók sína um lífshætti spendýra, sem seld var á staðnum. Þar var einnig fullt út úr dyrum og seldurst um 200 bækur á staðnum. Að auki komu margir með eldri bækur hans og fengu þær einnig áritaðar.