Fálka bjargað úr daunillri prísund

10. nóvember 2003

Um morguninn, þann 10 nóv. var haft samband við okkur og tilkynnt um fálka í nauðum í hesthúsahverfi.

Málavextir voru þeir að fálki hafði veitt önd, en í hita leiksins hafði hann álpast ofan í um þriggja metra djúpa þró og komst ekki upp úr. Til að gera málið hálfu verra var um hálfs metra djúpur grautur af vatni og hrossaskít í þrónni, en þó var lán í óláni að smá skítahrúga stóð upp úr við eina hlið þróarinnar. Þar hýrðist greyið þegar að var komið, rennblautur og slæptur.

Var ákveðið að reyna að ná honum í stóran plastkassa sem hafður var meðferðis og treyst á að fálkinn hefði fengið nóg af sullinu og hefði sig hægan. Þetta gekk eftir og einu viðbrðgð fálkans voru ámátlegt væl þegar kassin lokaði hann af uppi við þróarvegginn. Kassinn var síðan hífður upp, honum lokað og síðan ekið í snarhasti á Náttúrufræðistofnun Íslands við Hlemm. Þar var hann skilinn eftir í höndum sérfræðinga og átti von á ærlegu þrifabaði.