Ísbjörn í Kópavogi!!!

25. nóvember 2003

Næstu vikurnar verður ísbjörn til sýnis á safninu. Hann er fenginn að láni frá Náttúrustofu Vestfjarða. Hann mun verða á safninu fram til 8 desember eða fram yfir 20 ára afmæli náttúrufræðistofunnar sem er 3. desember.

hvitabj.jpgÍsbirnir eru stærsta tegund bjarndýra og þar með stærsta landrándýr heims. Þeir geta orðið yfir þrír metrar á lengd og vegið allt að 800 kg. Þeir geta náð 30 ára aldri og verða kynþroska 3 - 5 ára. Birnurnar geta átt einn til þrjá húna á 3 - 4 ára fresti og eru þeir háðir henni í um tvö ár. Hér á landi eru komur hvítabjarna oftast tengdar hafís og þarf því ekki að undra að þær eru flestar á svæðinu frá Hornströndum og austur um Norðurland. Það eru einnig mikil áraskipti að því hve algengar ísbjarnakomur eru og skera harðindakaflar sig úr s.s. frostaveturinn 1917-1918. Á síðustu öld er vitað með vissu um 71 dýr, þar af a.m.k. 27 veturinn 1917-18. Heimildir eru um rúmlega 500 dýr frá upphafi byggðar á Íslandi.

hvitabjarnakort.jpgMeginheimild: Komur hvítabjarna til Íslands fyrr og síðar, eftir Ævar Petersen og Þórir Haraldsson, í bókinni Villt íslensk spendýr, ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson. bls. 74-78. Útg. af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Landvernd, Reykjavík 1993.