Vel heppnuð jóla og afmælishátíð

08. desember 2003

Á laugardaginn 6. desember var haldið uppá 20 ára afmæli Náttúrutræðistofunnar. En hún var opnuð með vígslu þann 3. desember 1983. 

Hátt á 300 manns komu í heimsókn á Náttúrufræðistofuna og hlýddu á þá dagskrá sem boðið var uppá. En hún hófst með setningu forstöðumanns Náttúrufræðistofunnar dr. Hilmars Malmquist.

Þá flutti strengjasveit frá Tónlistarskóla Kópavogs tvö lög og Skólakór Kársness flutti þrjú lög.

Sigurrós Þorgrímsdóttir formaður menningarmálanefndar flutti ávarp og rakti hún stuttlega sögu og aðdraganda að stofnun Náttúrufræðistofunnar. Í ávarpi sínu flutti hún þakkir til þeirra aðila sem voru frumkvöðlar að stofnun stofunnar en þeir eru Árni Waag og Jón Bogason en þeirra sögu má sjá hér á vefnum. Árni Waag lést árið 2001 en ekkja hans Ragnheiður Ása Helgadóttir var viðstödd sem og Jón Bogason.

Eftir ávarp Sigurrósar kom Leikfélag Kópavogs og fluttir stuttan leikþátt með söngvum um jólaköttinn en hann tók svo upp nýstárlegt hlutverk þar sem hann færði börnum smá glaðning frá Náttúrufræðistofunni.

Að þessu loknu var gestum og gangandi boðið upp á kaffi og tertur í skötulíki og mýflugumyndum að hæfi Náttúrufræðistofu.