Útgáfuhátíð - Helgi Pjeturss og jarðfræði Íslands

09. desember 2003

Baráttusaga íslensks jarðfræðings í upphafi tuttugustu aldar eftir Elsu G. Vilmundardóttur, Þorstein Þorsteinsson og Samúel D. Jónsson.

Vegna útkomu bókarinnar efna Náttúrufræðistofa Kópavogs, Bókasafn Kópavogs og Pjaxi ehf. til útgáfuhátíðar í Bókasafni Kópavogs, Hamraborg 6A, fimmtudaginn 11. desember næstkomandi og hefst hún klukkan 17:30.
Jarðfræðiafrek Helga sem var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsprófi í jarðfræði verða dregin fram í dagsljósið auk þess sem höfundar bókarinnar kynna og árita.

Á bókarkápu segir meðal annars: "Jarðfræðingurinn Helgi Pjeturss (1872-1949) var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsnámi í jarðfræði. Hann tók þá ákvörðun á unglingsárum að verða jarðfræðingur og stunda rannsóknir á Íslandi en fyrir hans tíma hafði fræðigreinin mest einkennst af landkönnunum og yfirlitsrannsóknum. Helgi komst fljótt í álit meðal erlendra vísindamanna. Ekkert starf við hæfi bauðst honum á Íslandi en styrkir gerðu honum kleift að stunda rannsóknir um árabil með frábærum árangri".

"Í bókinni eru jarðfræðigreinar eftir Helga þýddar úr dönsku og þýsku. Þær eru m.a. doktorsritgerðin On Islands Geologi sem kom út 1905 og yfirlitsgreinin Island sem birtist árið 1910. Fjallað er um samskipti Helga og Þorvaldar Thoroddsens og birtar þýddar greinar eftir þá báða um ágreining þeirra varðandi ísöldina".