Ísbjörn framlengdur til 18 des :-)

10. desember 2003

Til stóð að ísbjörninn færi til síns heima strax að lokinni afmælishátíð Náttúrufræðistofu Kópavogs, en nú hefur lánstíminn verið framlengdur til 18 des.

Ísbirnir/hvítabirnir eru stærsta tegund bjarndýra og þar með stærsta rándýr heims. Þeir geta orðið yfir 3 metra langir og vegið allt að 800 kg. Þeir geta náð 30 ára aldri og verða kynþroska 3 - 5 ára. Birnurnar geta átt húna á 3 - 4 ára fresti (1-3 í einu) og eru þeir háðir henni í um 2 ár.

Hér á landi eru komur hvítabjarna oftast tengdar hafís og þarf því ekki að undra að þær eru flestar á svæðinu frá Hornströndum og austur um norðurland. Það eru einnig mikil áraskipti að því hve algengar hvítabjarnakomur eru og skera harðindakaflar og -vetur s.s. Frostaveturinn 1917-1918 sig úr. Á síðustu öld er vitað um a.m.k. 71 dýr hafi sést, þar af a.m.k. 27 veturinn 1917-18, en heimildir eru um rúmlega 500 dýr frá upphafi byggðar á Íslandi

Þessi hvítabjörn er fenginn að láni frá Náttúrustofu Vestfjarða.

Meginheimild: Komur hvítabjarna til Íslands fyrr og síðar, eftir Ævar Petersen og Þórir Haraldsson, í bókinni Villt íslensk spendýr, ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson. Bls. 74-78. Útg. Af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Landvernd, Reykjavík 1993.