Náttúrufræðahús HÍ tekið í notkun

06. janúar 2004

Þessa dagana er starfsemi að komast í gang í hinu nýja Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands og á morgun (þann 7. jan) mun kennsla hefjast þar.

Dömur mínar og herrar, það hafðist!!!

Tengsl Náttúrufræðistofu Kópavogs og Háskóla Íslands hafa mest verið gegn um Líffræðistofnun Háskólans, sem nú er að klára að flytja í hið nýja hús. All mörg rannsóknaverkefni, aðallega á sviði vatnalíffræði, hafa verið unnin í samstarfi þessara stofnana t.d. Er nú í gangi rannsókn á því hvaða áhrif affalsvatn frá Nesjavallavirkjun hefur á strandsvæði í Þingvallavatni.

Umrót síðustu daga og vikna hefur haft nokkur áhrif á starfsemi okkar, en eins og gefur að skilja er er lítill vinnufriður til rannsókna þegar verið er að undirbúa flutning heillar stofnunar í nýtt húsnæði. Hluti af starfsfólki líffræðistofnunar hefur því haft aðstöðu í rannsóknastofu okkar og lífgað verulega upp á starfsemina.

Á ýmsu hefur gengið við byggingu þessa húss og hefur hún tekið heldur lengri tíma en áætlað var. Ýmis fróðleikur um húsið og byggingarsögu þess hefur verið tekin saman á heimasíðu Háskólans.