Samspil skógarþekju og lífs í ám og vötnum

19. janúar 2004

Þann 15.-16. janúar síðastliðinn var haldin ráðstefna um áhrif skógræktar og landgræðslu á lífríki í ferskvatnskerfum. Titill ráðstefnunnar var: “Samspil milli skógarþekju og lífs í ám og vötnum” og var hún haldin að Laugum í Sælingsdal í Dalabyggð. Voru það Vesturlandsskógar, Rannsóknarstöð Skógræktar Ríkisins að Mógilsá, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Félag skógarbænda á Vesturlandi sem stóðu að ráðstefnunni.

Tveir af starfsmönnum Náttúrufræðistofunnar áttu þess kost að sækja þessa ráðstefnu og er hér gefið gróft yfirlit yfir efni og niðurstöður hennar. Einnig er hægt að nálgast flest erindi ráðstefnunnar á Heimsíðu Skógræktarinnar www.skogur.is

Meðal fyrirlesara voru Eva Ritter doktorsnemi í jarðefnafræði frá Danmörku og Colin Bean ráðgjafi hjá Skoska Náttúruverndar arfinum. Lýstu þau stöðu mála í sínum heimalöndum sem eru að ýmsu leiti all frábrugðnar því sem gerist hér á landi þar sem súr jarðvegur hefur verið helsta vandamálið undanfarna áratugi. Í Skotlandi hefur verið svipað ástand og hér að því leiti að þeir hafa verið að endurheimta horfin skóglendi og hafa nú talsverða reynslu að því starfi sem þeir geta miðlað af. Reynslu sem m.a. snýr að vali á tegundum til ræktunar, vali á landi sem tekið skuli til ræktunar og mismunandi nýtingarmöguleikar á skóglendum.

Umfjöllunarefni innlendra fyrirlesara voru í meginatriðum eftirfarandi: Freysteinn Sigurðsson frá Orkustofnun fjallaði um grunnvatn og möguleika skógar til að hreinsa og/eða viðhalda hreinleika þess. Sigurður Reynir Gíslason Raunvísindastofnun HÍ fjallað var um snefilefni í íslenskum vötnum og áhrifum þeirra á frumframleiðni. Kristinn Einarsson, Orkustofnun, fjallaði um hringrás vatnsins. Gísli Már Gíslason Líffræðistofnun HÍ fjallaði um samfélög smádýra í ám og lækjum m.t.t. gróðurs. Aðalsteinn Sigurgeirsson Rannsóknarstöðinni að Mógilsá fjallaði um Stöðu og horfur í skógvæðingu Íslands. Sigurður Guðjónsson frá Veiðimálastofnun fjallaði um samspil skógarþekju og fiskframleiðslu í ám. Stefán Óli Steingrímsson frá Hólaskóla fjallaði um atferli laxfiska og áhrif skógar á það. Bjarni Diðrik Sigurðsson, Mógilsá, fjallaði um vatnsbúskap íslenskra skóga og mælingar sem gerðar hafa verið á þessum þáttum. Og að lokum fjallaði Arnór Snorrason, Mógilsá, um úttekt á íslenskum skógum og eftirlit með framvindu skógræktar í tengslum við Ríó sáttmálann um bindingu gróðurhúsalofttegunda. Einnig fjallaði hann um leiðbeiningar sem verið er að taka saman um það hvernig standa skuli að skógrækt á landinu.

Megin niðurstaða ráðstefnunnar má segja að hafi verið vanþekking á íslenskum aðstæðum og að þekkingar sé þörf. Að öðru leiti má ætla að skógrækt sé að öllu jöfnu frekar jákvæð fyrir lífríki í vatnakerfum ekki síst í nágrenni vatnsbóla mannsins þar sem það getur stuðlað að viðhaldi vatnsgæða ef gætt sé hófs í áburðarnotkun. Skógrækt og landgræðsla getur aukið ákomu lífræns efnis í vatnakerfi en þar getur verið um næringu að ræða fyrir stærri hryggleysingja sem aftur eru fæða fiska. Skógrækt getur að einhverju leiti minnkað vatnsrennsli í dragárkerfi en einnig jafnað slíkt rennsli og ekki ætti að búast við því að mikil ákoma verði af næringarefnum með vatni undan skóglendum. Nokkur umræða varð um sýringu jarðvegs við skógrækt, einkum mun milli barrskógar og laufskógar en beinar mælingar sýna ekki mikinn mun á milli þessara svæða, þá helst í efstu jarðvegslögum. Fram kom að sýring tengist helst losun á saltpéturssýru sem barrnálar taka upp úr andrúmsloftinu en þetta efni er mjög tengt iðnaðarmengun sem ekki finnst hér nema í afar takmörkuðu mæli.