Veggjalús (rúmtíta) stingur 19 ára stúlku.

04. mars 2004

mynd11.gifVeggjalús (Cimex lecularius) hefur borist Náttúrufræðistofunni í fyrsta sinn. Þessi skordýr eru af ættbálki er kallast Skortítur.

Veggjalús (Cimex lecularius) hefur borist Náttúrufræðistofunni í fyrsta sinn. Þessi skordýr eru af ættbálki er kallast Skortítur. Títa þýðir mjór eða grannur hlutur og í þessu tilviki er vísað til munnlima dýranna sem eru ummyndaðir í mjóan og nokkuð langan sograna. Fæðunám þessara dýra fer fram með því að rana þessum er stungið í plöntur eða önnur dýr og frumusafi plöntunnar eða blóð dýrsins er sogið upp. Einnig eru til skortítur er lifa í ám og vötnum sem sjúga upp einfruma þörunga.

Nokkuð stór skordýr

Útbreytt er að tegundir af þessum ættbálki séu kallaðar lýs en er það nokkurt rangnefni þar sem lýs eru annar ættbálkur skordýra og af nokkuð öðrum uppruna en eiga þau þó blóðsogið sameiginlegt. Skortítur er lifa á því að sjúga frumusafa úr plöntum eru einnig gjarnan kallaðar blaðlýs. Hérlendis bera sumar skortítur títu-endingu í nafni sínu s.s. tjarnatítan (Arctocorisa carinata) og leirtítan (Salda littoralis). Væri það því annar og betri kostur að kalla blaðlýs t.d. blaðtítur, veggjalúsin gæti því borið nafnið “rúmtíta” þar sem rúm fólks er einn algengasti staðurinn þar sem þessar pöddur finnast en á ensku máli kallast hún “bedbug”.
mynd10.jpg
Sograni rúmtítunnar.

Þær rúmtítur er okkur bárust voru ættaðar af höfuðborgarsvæðinu og fundust þar í rúmdýnum íbúa, í tveimur herbergjum, alls nokkrir tugir einstaklinga. Voru húseigendur búnir að vera að undra sig á vondri lykt í herberginu um nokkra hríð, einnig höfðu þeir orðið varir við útbrot á útlimum er líktust skordýrabiti. Hafa títurnar einnig fundist í kommóðu er stóð við hlið annars rúmsins. Ekki er ljóst hvenær eða hvernig þessi dýr bárust í þetta tiltekna hús, líklegast er þó að þær hafi ekki komið erlendisfrá. Geta þau borist milli húsa t.d. með fatnaði, húsgögnum og ferðatöskum.

Rúmdýnan sem rúmtíturnar fundust í

Hafa þessi skordýr verið þekkt hér á landi um nokkurt skeið en fyrir nokkrum árum var talið að þeim hafi verið útrýmt en er þeirra farið að gæta nokkuð aftur. Hafa þessi dýr þann háttinn á að halda kyrru fyrir á daginn og þá oft í ýmsum skúmaskotum s.s. undir dýnum eða teppum á gólfum, bak við myndir eða í sprungum og glufum. Er náttar fara þær á stjá og leita þá uppi sofandi dýr og leggjast þá á fórnarlamb sitt og sjúga blóð og er aðal matmálstími þeirra milli kl. 3 og 6 að nóttu. Geta þær á 10 mínútum sogið fimmfalda þyngd sína af blóði en eftir það kjaga þær aftur í skjól og leggjast á meltuna. Nokkru síðar koma fram á stungustað útbrot með kláða. Eftri að fullorðnar rúmtítur hafa makast verpa þær 2 - 3 eggjum á dag út æfiskeið sitt sem er 6 - 12 mánuðir. Úr eggjum skríður lirfa, s.k. gyðla, og skiptir hún um ham 4 sinnum áður en hún þroskast í fullorðið dýr. Öll gyðlustigin lifa á blóði. Mögulegt er að þessi dýr geti verið smitberar en tilraunir með smitburð á lifrarbólgu B hafa ekki gefið jákvæða niðurstöðu.

Verði fólk vart við skordýr í híbýlum sínum getur það haft samband við Náttúrufræðistofuna.

Heimildir.
Michael Chinery: A field guide to the insects of Britain and northern Europe, 1985.
Helgi Hallgrímsson: Veröldin í vatninu, 1979.
Guðmundur Halldórsson o.fl.: dulin veröld, smádýr á Íslandi, 2002.
Sigurður H. Richter: Meindýr í heimahúsum. Rit Landverndar (ritstj. Hrefna Sigurjónsd. og Árni Einarss.) 1989.
http://medent.usyd.edu.au/fact/bedbugs.html (03.03.2004).