Risablóðsuga (ekki aprílgabb)

01. apríl 2004

Um hádegisleitið í dag barst til okkar pakki frá Náttúrustofu Vestfjarða á Bolungarvík, sem innihélt sprellifandi 15 cm langa blóðsugu. Kvikindið veiddist þann 25 mars á um 500 m dýpi skammt vestur af Kolbeinsey.

Framnes ÍS-708 fékk þennan ókvótaskilda aukaafla í rækjutroll um 4 sjómílur vestur af Kolbeinsey á 260-270 faðma dýpi. Að sögn Magnúsar Jónssonar skipstjóra eru þessar skepnur all algeng snýkjudýr á grálúðu, en þarna var hún ein á ferð. Dýrið er trúlega af ætt PISCICOLIDAE, en óvíst er hvaða tegund þetta er.

Ætlun okkar er að reyna að halda dýrinu á lífi, en til þess þarf m.a. að finna heppilegt æti. Raunar virðist það vera nokkuð lífseigt, en þegar það barst Náttúrustofu Vestfjarða hafði það verið geimt í þurrum bakka ásamt ýmsum öðrum undarlegum djúpsjávardýrum í a.m.k. nokkrar klukkustundir.