Annir hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs

06. júlí 2004

Hjá þeim sem starfa að náttúrurannsóknum er sumarið mikill annatími og þar erum við engin undantekning. Á næstunni verða flestir starfsmenn stofunnar í Mývatnssveit í tengslum við EURO-LIMPACS verkefnið. Þetta mun hafa einhver áhrif á daglega starfsemi, þar sem aðeins einn starfsmaður verður eftir á stofunni.

Auk hins gríðarstóra EURO-LIMPACS sam-evrópska rannsóknarverkefnis, er unnið að vöktun á eðlisþáttum nokkurra vatna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru Elliðavatn, Vifilsstaðavatn, Rauðavatn og Hafravatn. Farið er vikulega í vötnin og helstu eðlisþættir (sýrustig, hitastig, leiðni) mældir á nokkrum stöðum í hverju vatni. Þessar mælingar eru gerðar í framhaldi af vöktun okkar á Elliðavatni sem stóð í eitt ár. Þessu til viðbótar er undirbúningur í fullum gangi fyrir SIL ráðstefnu í Finnlandi, en hún verður dagana 7-14 ágúst.

Þá er einnig fyrirhuguð þáttaka okkar á ráðstefnum innanlands í haust. Dagana 9-12 nóvember verður ráðstefna á vegum "Arctic Climate Impact Assessment" sem starfar á vegum heimskautaráðsins. Þá kemur að afmælisráðstefnu Líffræðifélags Íslands og Líffræðistofnunar Háskólans sem haldin verður 19. og 20 nóvember.