Einstakt tímaskin og ratvísi hjá jaðrakan

07. október 2004

Í ljós hefur komið að íslensk jaðrakanapör fylgjast ekki að á vetrarstöðvum, heldur hittast á varpstöðvum að farflugi loknu. Að meðaltali mættu fuglarnir á varpstöðvar með aðeins þriggja daga millibili. Grein um þetta hefur nú birst í Nature, einu af virtustu vísindatímaritum heims.

Þetta þættu nú svo sem engar fréttir ef ekki væri fyrir þá staðreynd að pörin halda saman ár eftir ár. Hjá farfuglum liggur mikið við að varp hefjist sem fyrst og því mikilvægt að ekki þurfi að drolla lengi eftir makanum. Gerist það er hætta á að sá sem fyrr kemur finni sér bara nýjan. Fyrsti höfundur greinarinnar er Tómas G. Gunnarsson, en hann hefur í doktorsverkefni sínu stundað rannsóknir á jaðrakan. Fræðast má um verkefnið á heimasíðu þess Operation Godwit.

Þá hefur Morgunblaðið gert grein fyrir þessu á fréttavef sínum.