Pöddusumri lokið- haustfetatíðin gengin í garð

13. október 2004

Nýliðið sumar var mikið pöddusumar. Mikill fjöldi fyrirspurna og eintaka barst okkur og voru tvær tegundir sérlega algengar: gljárani og "gula flugan". Nú er hins vegar farið að bera á haustfeta, fiðrildi sem er árviss haustboði.

Í vor bar mikið á geitungadrottningum og gerðu margir ráð fyrir miklu geitungasumri. Það fór á annan veg og virðast holugeitungar hafa farið sérlega illa út úr sumrinu. Tilgátur eru uppi um að hlýindi og raki hafi mögulega valdið þessu, en bú sem eru neðanjarðar eru væntanlega sérlega viðkvæm fyrir raka.

Ýmsar aðrar pöddutegundir kunnu hins vegar vel að meta þessar aðstæður og urðu mjög áberandi þrátt fyrir smæð sína. Lítillar ranabjöllu, gljárana, varð vart í meira mæli en fólk hafði séð áður og höfðu sumir það að orði að ekki veitti af að sópa stéttir og anddyri oft á dag. Þá bárust fjölmargar fyrirspurnir af öllu stór-höfuðborgarsvæðinu vegna lítillar gulrar flugu sem enginn kannaðist við. Þar var um að ræða "gulu fluguna" (Lyciella rorida) sem enn hefur ekki hlotið íslenskt nafn. Hún fannst fyrst í Fossvogsdal fyrir nokkrum árum, en hefur heldur betur náð sér á strik. Báðar þessar tegundir voru algengastar þar sem garðar voru stórir og ræktarlegir.

Þessa dagana er svo farið að bera á gráleitu fiðrildi sem situr gjarna á veggjum og gluggum. Þarna er á ferðinni haustfeti, en helsti flugtími hans er í október og nóvember. Hjá haustfetanum bregður svo við að aðeins karldýrin eru fleyg, kvendýrin hafa aðeins örsmáa vængstubba og eru gersamlega ófleyg.