Jólakötturinn í Safnahúsinu

02. desember 2004

Bókasafn Kópavogs og Náttúrufræðistofa Kópavogs bjóða upp ævintýri fyrir krakka á leikskólalaldri vikuna 6.-10. des. og 13.-17. des. Dagskráin varir um 45 mínútur og fer fram tvisvar á dag, kl. 10 og 13. Tekið er við pöntunum í síma 570 0450.

mynd22.jpgUM JÓLAKÖTTINN OG AÐRAR ÓFRESKJUR

Jólin eru hátíð barnanna. Öll erum við börn á einn eða annan hátt og því eru þau hátíð okkar allra. Jólin eru líka háannatími kvikinda, óvætta og illþýðis hverskonar. Þar með taldir eru jólakettir og fleira af undarlegu dýrakyni. Jólin, með skringilegum og óttalegum kvikindum, eru því einnig sérstaklega áhugaverður tími fyrir náttúrufræðinga.

Jólakötturinn er ólíkt húskettinum fremur nýr í fánu Íslands, líklega ekki nema 200 ára í mesta lagi. Húskötturinn eða heimiliskötturinn er hins vegar talinn hafa borist hingað til lands fljótlega á landnámsöld. Munu þeir hafa verið hafðir til músaveiða auk annars eins og getið er í Víga-Styrs sögu og Vatnsdælu. Í Grágás er einnig bálkur um verðgildi kattaskinna og var góður högnafeldur jafnvel meira metinn en refskinn. Þetta kann að benda til þess að menn hafi alið ketti að einhverju leyti skinnsins vegna og að húskettir, sem breiddust hratt út í Evrópu fyrir um 1000 árum, hafi meðal annars þess vegna fylgt landnámsmönnum.

Jólakötturinn í íslensku jólahaldi tengist þeim aldagamla sið, sem er mun eldri en jólakötturinn, að flest heimilisfólk fékk nýja flík og sauðskinnsskó, svokallaða jólaskó, frá húsbændum sínum á jólunum. Líklega hefur verið um nokkurskonar launauppbót að ræða eftir strit ársins, sem í dag heitir desemberuppbót, fremur en einstaklingsbundna kærleiksgjöf. Seinni tíma sögur herma svo að þeir sem ekki stóðu sig við jólaundirbúninginn eða voru bara almennt latir til verka fengu enga flík og færu í jólaköttinn, þ.e.a.s. Voru étnir af jólakettinum, eða hann át jólaref viðkomandi – ríflegan matarskammt sem hver og einn fékk af öllu því besta sem til var í búrinu. Einnig herma sögur að þeir sem enga flík fengu yrðu að klæða kött í buxur á jólanótt í augsýn allra heimilismanna. Þótti þetta greinilega hin mesta háðung og þykir sennilega enn því kettir kunna þvílíkum meðförum illa og bregðast við grimmir. Aðrar sagnir greina svo frá að jólaklæðalaus maður skuli á aðfangadagskvöld skvetta úr hrútshorni fullu af hlandi í rúm það sem hann fæddist í.

Jólakötturinn íslenski er nokkuð sér á báti og virðist ekki koma fyrir í jólahaldi annarra þjóða. Hins vegar er það hald manna að hann sé ættaður frá Noregi, en þar eru kunnar álíka sögur um óttaleg kvikindi, að vísu jólageitur, sem hrella menn sem enga flík fá á jólunum. Geitur voru fágætar hér á landi þegar fyrst fer að spyrjast til jólakattarins, og ekki þekktar sem óvættir. Það var aftur á móti urðarkötturinn og má leiða að því líkur að í geitaleysinu hafi verið nærtækast að búa til jólakött náskyldan urðarkettinum.

Um urðarketti almennt er það að segja að þeir eru fæddir vejnulegir húskettir, einkum alhvítir högnar, en leggjast út að fullu og verða þá úfnir og grimmir. Verstir eru þeir sem grafa sig í kirkjugarða, rífa í sig lík og éta þau, en við það vaxa þeir mjög svo að slær hundum við og verða svo grimmir að mannsöfnuð þarf til að ráða niðurlögum þeirra. Komi urðarköttur upp úr grafreit ber að forðast að horfa í glyrnurnar því augnaráðið er bráðdrepandi. Ráð er að bera spegil fyrir ófreskjuna því líkt og með mörgum manninum þola urðarkettir ekki að horfast í augu við sjálfa sig.

Gleðilega jólahátíð og gott gengi með jólaköttinn!

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs

Nánar um jólakött og sitthvað fleira jóla- og kvikindislegt má lesa í ritum Árna Björnssonar Jól á Íslandi (Ísafoldarprentsmiðja 1963) og Í jólaskapi (Bjallan 1983). Einnig í Íslenskum þjóðháttum eftir séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili (Ísafoldarprentsmiðja 1961).