Hvernig var svo síðastliðið natkop-ár ???

03. janúar 2005

Jú, árið 2004 var gott ár hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs. Aðsókn á safnið jókst enn og fór gestafjöldi yfir 8600 manns á árinu. Þá var mikill kraftur í rannsóknum og þátttaka í ráðstefnum var með mesta móti.

Aðsókn
Aðsókn að náttúrugripasafni okkar hefur aukist sífellt milli ára og fór gestafjöldi yfir 8600 manns á árinu. Rétt er að taka fram að uppgefnar fjöldatölur eru lágmarkstölur. Eins og fyrri ár eru skipulagðir hópar stærstur hluti gesta en hlutur almennra gesta fer vaxandi. Umsjón með safninu, leiðsögn og móttaka gesta er því vaxandi hluti í starfsemi Náttúrufræðistofunnar.

Rannsóknir
Þrátt fyrir að vera lítt sýnilegur almenningi svona dags daglega, þá hefur rannsóknaþátturinn verið meginhluti starfsemi Náttúrufræðistofu Kópavogs um árabil. Hér á eftir verða talin upp nokkur rannsóknaverkefni sem unnið var að á síðasta ári.

Einna hæst bar þátttöku í hinu sam-evrópska Euro-limpacs verkefni. Í tengslum við það dvöldu fjórir starfnmenn stofunnar í Þingeyjasýslu um hálfs mánaðar skeið þar sem unnið var að rannsóknum á stöðuvötnum, ásamt innlendum og erlendum samstarfsstofnunum og starfsfólki þeirra. Úrvinnsla úr þessum efnivið stendur nú yfir og stendur til frekara samstarf næsta sumar.

Forkönnun á lífríki Elliðavatns, verkefni sem unnið var fyrir Kópavogsbæ og Reykjavíkurborg, lauk formlega með útgáfu skýrslu. Í henni voru helstu niðurstöður tíundaðar og settar fram tillögur að frekar vöktun og rannsóknum. Í framhaldi af þessu verkefni hóf Náttúrufræðistofan að vakta nokkra eðlisþætti í Vífilsstaðarvatni, Elliðavatni, Rauðavatni og Hafravatni. Mælingar eru að jafnaði gerðar á 10 daga fresti yfir sumartímann og mánaðarlega yfir vetrartímann.

Náttúrufræðistofan tók á s.l. Ári þátt í þremur rannsóknarverkefnum sem sneru að lífríki Þingvallavatns. Í öll skiptin var um að ræða samstarfsverkefni með Líffræðistofnun Háskólans. Í fyrsta lagi var um að ræða verkefni þar sem verið var að kanna áhrif heits affallsvatns frá Nesjavallavirkjun á lífríki strandsvæða. Þá var aldurs- og stærðarsamsetning hrygningarstofns murtu, könnuð með því að leggja netaseríu með misstórum möskvum á hrigningarstöðvar murtunnar. Þetta verkefni hefur staðið í um tuttugu ár og skilað miklum upplýsingum. Loks var um að ræða verkefni þar sem verið var að kanna skildleika tveggja ólíkra bleikjuafbrygða (murtu og dvergbleikju) með erfðafræðilegum rannsóknum.

Ráðstefnur
Árið 2004 var gott ráðstefnuár. Hér má finna samantekt um þær ráðstefnur sem starfsfólk Náttúrufræðistofunnar sótti, bæði innanlands sem utan.