Ánægjuleg viðbót við tækjakost okkar

16. febrúar 2005

Nú á dögunum bættist vönduð smásjá við rannsóknabúnað Náttúrufræðistofunnar. Þetta nýja tæki bætir úr brýnni þörf og eykur rannsóknagetu stofunnar töluvert.

Fram til þessa hefur greiningarhæfni smásærra lífvera í rannsóknum okkar takmarkast við stækkunarsvið víðsjár. Hafi verið þörf á meiri stækkun hefur þurft að leita á náðir annarra rannsóknarstofnanna eins Náttúrufræðistofnunnar eða Lífræðistofnunnar Háskólans. Þetta hefur skapað óhagræði þar sem flytja hefur þurft fólk og sýni milli staða, auk þess sem þessi tæki eru yfirleitt í stöðugri notkun og því oft erfitt fyrir utanaðkomandi að komast að. Þessi vandamál eru nú úr sögunni.

Til að auka enn á notagildi hins nýja tækis, er fyrirhugað að fjárfesta í búnaði sem gerir kleift að tengja það ljós- og videomyndavélum. Þann búnað verður einnig hægt að nota á víðsjá sem þegar er í okkar eigu. Auk víðtækrar gagnsemi í rannsóknum, gefur þetta kost á að útbúa úrvals kennslu- og fyrirlestraefni, t.d. Fyrir skólahópa, en sífellt algengara er að slíkir hópar komi til okkar og panti fræðslu um ákveðin náttúrufræðileg efni.