Ný skýrsla um gróðurfar í Borgarholti

25. febrúar 2005

Niðurstöður ýtarlegrar athugunnar á gróðurfari Borgarholts, sem unnin var s.l. sumar, eru nú aðgengilegar hér á heimasíðunni.

Nýlega var gerð vönduð úttekt á gróðurfari í Borgarholtinu. Úttrektin fór fram á vegum Náttúrufræðistofnunnar Íslands, að beiðni Náttúrufræðistofu Kópavogs. Afrakstur þessarar vinnu gefur að líta í skýrslu Náttúrufræðistofnunnar, en í inngangi hennar segir meðal annars:

"Þar sem Kársnesið stendur hæst í um 43 m h.y.s. Er áberandi hnullunga- og klapparholt og kallast það Borgarholt. Þar stendur Kópavogskirkja. Borgarholtið er friðlýst sem náttúruvætti en þar gefur að líta hvað gleggstu minjar á höfuðborgarsvæðinu um hæstu sjávarstöðu á Suðvesturlandi frá lokum ísaldar.

Í Borgarholti eru tiltölulega óspillt gróðurlendi með mikilli fjölbreytni mosa og háplantna. Stærstur hluti holtsins er vaxinn lyngmóa og birkikjarr er útbreitt. Graslendi, mýrlendi og deiglendi finnast einnig. Allt eru þetta gróðurfélög sem hafa hátt verndargildi inni í miðri byggð þar sem þau eru tiltölulega náttúruleg og villt og gefa til kynna hvernig gróður væri á efri hluta Kársness væri það óbyggt. Gróðurlendin og tegundafjölbreytni mosa og háplantna í Borgarholti hefur því hátt verndar- og fræðslugildi á svæðisvísu að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Samtals voru skráðar 114 tegundir háplantna, auk ættkvíslar túnfífla og undafífla í Borgarholti. Allar tegundirnar sem fundust eru algengar á Suðvesturlandi og á landsvísu nema ein; blátoppa (Sesleria albicans) sem er á válista. Samtals hefur fundist 91 mosategund í Borgarholti. Flestar tegundirnar eru algengar á SV-landi og á landsvísu. Tvær tegundir eru flokkaðar sem sjaldgæfar á landsvísu, hnyðrumosi, (Glyphomitrium daviesii) og gjótustubbur, (Trichostomum tenuirostre) og eru þær á válista".