Náttúrufræðingurinn - STÓRÚTSALA !!!

25. febrúar 2005

Ákveðið hefur verið að ráðast í söluátak á tímaritinu Náttúrufræðingnum. Útsalan fer fram hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs og stendur frá 26. febrúar til 14. mars. Að auki verða til sölu bækurnar Náttúra Mývatns og Surtsey, lífríki í mótun.

Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) á nokkrar umframbirgðir af flestum heftum Náttúrufræðingsins frá og með 41. árgangi (útgáfuárinu 1971). Þessar birgðir safna nú ryki og taka dýrmætt rými í geymsluhúsnæði.

Stjórn HÍN hefur ákveðið að ráðast í sérstakt söluátak til að koma sem mestu af tímaritinu út á markað og til almennings, þar sem tímaritið á heima. Í því skyni verður haldin tveggja vikna sölumessa á Náttúrufræðingnum í Safnahúsinu, húsakynnum Náttúrufræðistofu Kópavogs að Hamraborg 6 A í Kópavogi. Þar mun tímaritið liggja frammi til sölu á mjög vægu verði – 50 kr. Fyrir hvert hefti, eða 200 kr. Fyrir hvern árgang (fjögur hefti). Enn meiri afsláttur verður veittur kaupi viðkomandi marga árganga.

Sölumessan hefst laugardaginn 26. febrúar og stendur fram til mánudags 14. mars.

Auk Náttúrufræðingsins verða til sölu bækurnar Surtsey, lífríki í mótun eftir Sturlu Friðriksson (kr. 1500), Náttúra Mývatns í ritstjórn Arnþórs Garðarssonar og Árna Einarssonar (kr. 2000) sem HÍN gaf út á sínum tíma og Flóra Íslands eftir Stefán Stefánsson. Fer þar algjör klassík þar sem þessi bók er fyrst gefin út á Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1900. Hér er um þriðju útgáfu að ræða sem er í umsjón Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum og Ingólfs Davíðssonar en hún var gefin út á Akureyri árið 1948. Verðið á þessari bók er krónur 500.

Félagsmenn HÍN eru hvattir til að nýta sér þetta kostaboð og kynna það fyrir öðrum. Nú er tækifærið til að næla sér í eintök af gömlum Náttúrufræðingi. Enda þótt umframbirgðir séu til nokkrar á Náttúrufræðingnum frá og með 41. árgangi þá skal minnt á að tímaritið er töluvert vinsælt. Mjög erfitt er orðið að ná í hefti úr fyrstu 40 árgöngunum og sum heftin eru ófáanleg með öllu.