Metaðsókn að Náttúrufræðistofunni

10. mars 2005

Það sem af er árinu hefur verið óskað eftir leiðsögn fyrir um 600 gesti um sýningarsali okkar. Þetta er um þriðjungs aukning frá sama tíma í fyrra. Heildarfjöldi safngesta stefnir í um 2000 á fyrsta ársfjórðungi.

Um þriðjungur gesta safnsins eru hópar sem óska eftir leiðsögn. Einnig er mikið um að smærri hópar komi og skoði safnið á eigin spítur, enda eru merkingar við gripi safnsins hugsaðar þannig að þær séu sem skýrastar og veiti helstu upplýsingar. Þá er safnið vel sótt af almennum gestum, ferðamönnum og fjölskildufólki og njótum við þar góðs af sambýlinu við Bókasafn Kópavogs, Salinn og Gerðarsafn.

Meginþorri þeirra gesta sem fengið hafa leiðsögn, eru skólahópar og virðist nokkur aukning hafa orðið á hópum frá nágrannasveitarfélögum. Mest er um leikskólahópa, en einnig koma grunn- og framhaldsskólanemar, auk þess sem iðnnemar eru hér fastur liður.

Nokkuð er um að hópar óski eftir fræðslu um afmörkuð efni, s.s. seli, geitunga og fjörudýr. Við höfum við reynt að mæta þessum óskum eftir bestu getu, t.d. með stuttum fyrirlestrum og myndasýningum í fundarsal okkar, Kórnum. Af viðtökunum má ljóst vera að þessi þáttur fræðslustarfsins á eftir að aukast.

Leitast er við að starfsfólk Náttúrufræðistofunnar sé ætíð til staðar á opnunartíma, komi upp spurningar varðandi safnið eða önnur erindi. Öll þjónusta við gesti safnsins hefur verið veitt ókeypis. Það hefur mælst sérlega vel fyrir og á örugglega sinn þátt í að skýra hina sívaxandi aðsókn.