Hresst upp á sjávarbúrið

16. mars 2005

Síðastliðna daga hefur verið hresst verulega upp á sjávarbúrið okkar. Til viðbótar hefðbundnum íbúum þess, má nú sjá þar sæbjúga, sæfífla, ígulker og fleiri forvitnileg dýr.

Komið er á óformlegt samstarf er varðar skipti á sjávardýrum milli Náttúrufræðistofunnar og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, en sem kunnugt er hefur þar verið opnuð myndarleg sýning á sjávardýrum í fjórum stórum sjóbúrum. Í skiptum fyrir skarkola og sprettfiska fengum við sandhverfu og sæfífla ásamt smá blandi í poka :o)

Trúlegt er að þetta auki á fjölbreitni þeirra dýrategunda sem finna má í búrum á báðum stöðum, en að auki verður framboðið væntanlega stöðugra. Reynslan er nefnilega sú að meðan ýmis dýr lifa fremur stutt í búrum, vaxa önnur hreinlega upp úr þeim á fáeinum mánuðum. Endurnýjun þarf því helst að vera nokkuð ör.