Styrkir frá Umhverfisráðuneyti og Safnasjóði

17. mars 2005

Umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að veita Náttúrufræðistofu Kópavogs 300.000 kr. styrk vegna fyrirhugaðra rannsókna á Kleifarvatni. Þá hefur Safnasjóður veitt Náttúrufræðistofunni rekstrarstyrk upp á 1.000.000 króna.

Umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að veita Náttúrufræðistofu Kópavogs 300.000 kr. Styrk vegna fyrirhugaðra lífríkisrannsókna á Kleifarvatni. Kleifarvatn er afskaplega áhugavert vatn. Það er mjög djúpt og tært, í því er verulegur jarðhiti, það er án afrennslis á yfirborði og í því geta orðið verulegar vatnsborðssveiflur. Þrátt fyrir þetta hafa litlar rannsóknir farið fram á lífríki þess og vistkerfi.

Fyrirhugaðar rannsóknir á Kleirfarvatni eru í raun tvennskonar: Annarsvegar er það eitt af þeim vötnum sem rannsökuð verða næsta sumar í tengslum við Euro-limpacs verkefnið, en megin rannsóknirnar munu beinast að áhrifum tilraunar til uppgræðslu næsta nágrennis þess með dreifingu hrossaskíts.

Meginmarkmið þeirrar rannsóknar er að kanna hvort þessar uppgræðslutilraunir hafa áhrif á vatnið, t.d. Hvort marka megi breytingu í styrk næringarefna, magni svifþörunga eða lífsskilyrðun í vatninu almennt. Að rannsókninni standa Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrustofa Reykjaness og Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs.

Styrkur Safnasjóðs er almennur rekstrarstyrkur sem nýtist m.a. Til uppbyggingar á sýningaraðstöðu. Þar með talið er kostnaður vegna útvegunar sýningargripa, uppstoppunar dýra og þess háttar. Safn Náttúrufræðistofunnar er enn í mótun og því kemur styrkur af þessu tagi sér afskaplega vel.