Náttúrufræðistofan fær styrki til tækjakaupa

23. mars 2005

Tækjasjóður Rannís hefur nú úthlutað styrkjum til tækjakaupa fyrir árið 2005 og hlýtur Náttúrufræðistofan og samstarfsaðilar hennar styrki upp á ríflega 2,2 milljónir króna.

Annarsvegar er um að ræða styrk til kaupa á vandaðri hljóðsjá (sonar) til rannsókna á fiskum og smádýrum í ferskvatni og hinsvegar smásjárbúnaði þar sem m.a. Er hægt að taka stafrænar myndir við mikla stækkun. Þar sem fjármögnun þessara tækja er nú í höfn verður væntanlega ráðist í kaup þeirra srax eftir páska.

Ljóst er að hinn nýji búnaður eykur rannsóknargetu okkar verulega. Hljóðsjá af sambærilegri gerð er ekki til í landinu og mun tilkoma hennar væntanlega valda byltingu í vatnarannsóknum. Þá hefur þörfin fyrir vandaða smásjá þar sem hægt er að taka myndir (bæði kyrr- og hreyfimyndir) orðið æ meira knýjandi. Þetta kemur til af aukinni þörf fyrir fíngreiningu smásærra lífvera, sem og lífveruleifa úr vatnaseti. Þá gefur þessi búnaður möguleika á að sinna fræðsluhlutverki Náttúrufræðistofunnar enn betur en áður.