Lokað föstud. 15 apríl vegna óskipulagsleysisdags

09. apríl 2005

Einu sinni á ári fer starfsfólk Safnahússins í dagsferð út fyrir bæjarmörkin. Nú er fyrirhugað að þessi ferð verði farin næstkomandi föstudag, þann 15 apríl. Af þessu tilefni verða Bókasafn og Náttúrufræðistofa Kópavogs lokuð þann dag.

Á síðasta ári var farið upp á Snæfellsnes og tókst sú ferð hið besta. Veðrið setti mark sitt nokkuð á þá ferð og fengum við að reyna flest það sem íslenskt veður hefur upp á að bjóða (blindbyl, slagviðri, steikjandi sól, skýjað með köflum og svo mætti áfram telja). Stemmingin í hópnum var með besta móti og allir staðráðnir í að skemmta sér hið besta, hvað sem tautaði og raulaði.

Nú er stefnan tekin austur fyrir fjall. Ekki verður ljóstrað upp um dagskránna að þessu sinni, en víst er að engum ætti að leiðast.