Náttúrufræðistofan hefur rannsóknir á Kleifarvatni

27. apríl 2005

Á dögunum fóru fram forathuganir vegna fyrirhugaðrar vöktunar á lífríki og eðlisþáttum í Kleifarvatni. Að þeim stóðu starfsmenn Náttúrufræðistofunnar, Náttúrufræðistofu Reykjaness og Veiðimálastofnunnar.

Nú vaknar e.t.v. Spurningin: Af hverju á að fara að rannsaka Kleifarvatn, er ekki löngu búið að því? Því er til að svara að lítið er í raun vitað um vatnið, lífríki þess og efnabúskap og raunar hafa litlar sem engar rannsóknir á þessum þáttum farið fram síðan Pálmi Hannesson og Geir Gígja voru þar á ferð á fyrri hluta síðustu aldar.

En það er fleira sérstakt við vatnið. Það er stórt (10 km2) og djúpt (97 m) og án afrennslis á yfirborði. Í því er hveravirkni og þar geta orðið verulegar vatnsborðssveiflur. Þá eru fyrirhugaðar tilraunir til uppgræðslu við vatnið með dreifingu hrossaskíts og er m.a. Ætlunin að fylgjast með hvort áhrifa þessa muni gæta í vatninu. Fyrir þeim tilraunum standa samtökin Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs.

Í þessari fyrstu ferð var siglt um vatnið til að kanna vatnagróður meðfram strandsvæðum, hveravirkni o.fl. Þá voru tekin vatnssýni til efnamælinga ásamt svifsýnum af 5-20 m dýpi. Einnig var hitastig, leiðni, sýrustig og súrefnisinnihald mælt frá yfirborði og niður á 50 m dýpi. Sjóndýpi var 7,5 m.

Í ljós kom veruleg hveravirkni í sunnanverðu vatninu á 4-6 m dýpi. Því er ljóst að þeir hverir sem komu í ljós við lækkun vatnsborðsins í kjölfar suðurlandsskjálftans árið 2000, eru aðeins lítill hluti þess hverasvæðis sem vatnið hylur. Hverirnir virðast ekki hafa afgerandi áhrif á vatnshita nema á litlu svæði, en leiðni- og sýrustigsmælingar benda til við að þeir hafi talsverð áhrif á efnasamsetningu vatns á stóru svæði.

Vatnagróðurs varð ekki vart á þeim stöðum sem hans var leitað. Víðast var fínn sandur í botni. Nokkuð var hinsvegar um svifþörunga í vatnsbolnum og má sjá myndir af nokkrum þeirra hér að neðan. Myndirnar eru teknar við 100 - 1000x stækkun.

mynd39.jpg

Stjarneskingar (Asterionella sp.) við 400x stækkun

mynd40.jpg

Tafleskingar (Tabellaria sp.) og pípulaga sáldeskingar (Melosira sp.) við 100x stækkun. Rauði ramminn er svo stækkaður 1000x á myndinni fyrir neðan

mynd41.jpg