Lyngbobbar í Borgarholti

06. júní 2005

Upp á síðkastið hafa stórir sniglar með kuðung á baki sér, vakið athygli glöggra náttúruskoðenda hér í Borgarholtinu. Um er að ræða Lyngbobba, tegund sem þar til nýlega, var talin bundin við austurland.

mynd47.jpgAthygli starfsmanna Náttúrfræði- stofunnar var loks vakin á þessu þegar tveir ungir menn bönkuðu uppá og vildu fá að vita hvað þetta væri sem þeir höfðu verið að safna í dolluna sína. Það verður að viðurkennast að undirritaður rak upp all stór augu þegar við blöstu nokkrir tugir Lyngbobba, sem safnað hafði verið nánast fyrir utan gluggan hjá honum :-)

Hér gefur að líta mynd af aflanum

Nýlega birtist grein í Náttúrufræðingnum 71(3-4) þar sem sagt var frá fundi Lyngbobba á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum. Þar er leitt getum að því að þeir hafi slæðst til landsins, t.d. Með innflutningi á gróðurvörum frá Danmörku og fram til þessa hafa fundarstaðir þeirra stutt þá tilgátu.

Nú virðast þeir hins vegar vera farnir að lifa "villtir" (utan gróðrarstöðva og plantaðra limgerða) í náttúrulegu umhverfi. Bobbarnir sem fundust hér í Borgarholtinu voru af ýmsum stærðum og því nokkuð ljóst að þeir hafi náð hér fótfestu. Fróðlegt verður að fylgjast með útbreiðslu þeirra á næstu árum.