Nýtt rit um rykmýsfánu Íslands

22. ágúst 2005

mynd53.jpgNýtt, uppfært tegundatal fyrir rykmý á Íslandi er komið út í ritröðinni The Zoology of Iceland. Höfundur er Þóra Hrafnsdóttir, líffræðingur og starfsmaður á Náttúrufræðistofu Kópavogs, en verkið vann hún að miklu leyti á Náttúrufræðistofnun Íslands áður en hún kom til starfa á Náttúrufræðistofuna.

Nýtt, uppfært tegundatal fyrir rykmý á Íslandi er komið út í ritröðinni The Zoology of Iceland. Höfundur er Þóra Hrafnsdóttir, líffræðingur og starfsmaður á Náttúrufræðistofu Kópavogs, en verkið vann hún að miklu leyti á Náttúrufræðistofnun Íslands áður en hún kom til starfa á Náttúrufræðistofuna. Verkefnið nýtti Þóra til meistaranáms við Ferksvandsbiologisk Laboratorium, Kaupmannahafnarháskóla og var leiðbeinandi Claus Lindegaard, vatnalíffræðingur. Þóra er í hálfu starfi sem sérfræðingur á Náttúrufræðistofu Kópavogs og stundar jafnframt doktorsnám í vatnalíffræði við Háskólann í Exeter á Bretlandi.

Hið nýja rykmýstal byggist á yfirgripsmikilli rannsókn á tegundafjölbreytileika og útbreiðslu rykmýs á Íslandi. Nú eru þekktar 80 tegundir af rykmýi á landinu, þar af eru 20 tegundir nýjar fyrir landið. Rykmýsfána Íslands er hlutfallslega tegundafá miðað við fánu nágrannalandanna og má skýra það með landfræðilegri einangrun landsins og norðlægri legu þess. Aftur á móti er fjölbreytileiki rykmýs hér á landi mun meiri en annarra hópa vatnadýra sem algengir eru í ferskvatni í Evrópu. Sérstaðan í íslenskri náttúru er því mikil, rykmý er ríkjandi hópur í lífríki ferskvatns á Íslandi og mikilvægur hlekkur í fæðukeðjunni, en fiskar jafnt sem fuglar lifa að miklu leyti á rykmýi, einkum lirfunum. Íslenska rykmýsfánan er af norður-evrópskum uppruna, þ.e. frá Skandinavíu og Bretlandseyjum, og aðeins tvær tegundir teljast norðuramerískar og ein tegund telst til norðurskautsins. Þetta er samhljóða niðurstöðum annarra rannsókna á skordýrafánu landsins.

Í ritinu er, auk tegundatals, að finna útbreiðlsukort fyrir hverja tegund, svo og upplýsingar um helstu búsvæði tegundanna. Niðurstöður rannsóknarinnar eru hýstar í samræmdum gagnagrunni um náttúru Íslands, sem er eitt af meginhlutverkum Náttúrufræðistofnunar Íslands að halda utan um. Þessar upplýsingar um tegundafjölbreytileika eins mikilvægasta dýrahóps í ferskvatni á Íslandi munu ótvírætt styrkja íslenskar vatnalíffræðirannsóknir í framtíðinni svo og rannsóknir á loftlagsbreytingum á norðlægum slóðum, enda er rykmý einn sá dýrahópur sem notaður er til að lesa sögu loftslagsbreytinga aftur í tímann.