Vel heppnað málþing um Borgarholt

15. september 2005

mynd55.jpgFimmtudaginn 1. september s.l. Var haldið málþing hér í Safnahúsinu um framtíð Borgarholts í Kópavogi. Tilefnið var nýleg rannsókn á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands á gróðri í holtinu, en athugunin leiddi m.a. Í ljós að ef ekki verður gripið í taumana mun holtið, sem er friðlýst vegna sérstakrar jarðfræði og ísaldarminja, fyrr en seinna verða þakið birkiskógi.

Málþingið var vel sótt og var nær fullt út úr dyrum í Kórnum, en ríflega 70 manns mættu til leiks. Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Kópavogs setti þingið og í máli hans kom m.a. fram hans skoðun að vernda bæri Borgarholtið með jarðfræðilega sérstöðu þess að leiðarljósi. Flutt voru þrjú framsöguerindi og boðið upp á umræður að þeim loknum. Guðmundur Guðjónsson og Kristbjörn Egilsson líffræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands greindu frá helstu niðurstöðum gróðurrannsóknarinnar sem fram fór í Borgarholti sumarið 2003. Árni Bragason forstöðumaður náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar fjallaði um forsendur friðlýsingar á Borgarholti og Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs ræddi málefni Borgarholtsins í sögulegu ljósi, en á árunum 2000-2001 var töluvert ritað í bæjarblöðin um Borgarholtið og verndun þess.

Rannsókn Náttúrufræðistofnunar Íslands á gróðri í Borgarholti fór fram sumarið 2003 og leiddi m.a. í ljós að ef ekkert verður aðhafst mun holtið fyrr en seinna verða þakið birkiskógi, en rætur birkisins má að nokkru leiti rekja til nærliggjandi húsgarða. Þá kom einnig fram að lúpína hefur fest rætur á holtinu. Jafnframt staðfestir rannsóknin að óvenjumikið er af villtum háplöntutegundum í holtinu, eða um fjórðungur af íslensku flórunni, og þá vaxa þar um 100 tegundir af mosum. Niðurstöður í gróðurrannsókn Náttúrufræðistofnunnar eru kynntar í skýrslunni Gróður í Borgarholti, Kópavogi, eftir Guðmund Guðjónsson og Kristbjörn Egilsson (NÍ04007. Reykjavík, mars 2004. 28 bls.).

Borgarholtið var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981 vegna jarðfræðilegrar sérstöðu, en á holtinu gefur að líta hvað gleggstar minjar á höfuðborgarsvæðinu um hæstu sjávarstöðu á Suðvesturlandi frá lokum síðustu ísaldar. Holtið með Kópavogskirkju og sæbörðum, ávölum grágrýtishnullungum er einnig eitt helsta kennileiti Kópavogs. Gróska í villtum háplöntu- og mosategundum gefur holtinu einnig mikið gildi.

Megintilgangur málþingsins var að vekja athygli og fá fram viðbrögð hjá fólki við þeirri gróðurframvindu sem fyrirsjáanleg er á Borgarholtinu á næstu árum og þeim afleiðingum sem gróðurframvindan mun hafa á útlit holtsins og náttúrufarslegt gildi.

Óhætt er að segja að tilgangurinn hafi gengið eftir því miklar umræður urða að loknum framsöguerindum og fundarmenn nær einhuga um aðgerðir til að standa vörð um Borgarholtið. Í fundarlok var borin fram fyrirspurn til fundarmanna og þeir beðnir um að rétta upp hönd sem vildu ekkert aðhafast á holtinu og leyfa trjágróðrinum að þróast þar áfram óáreittur. Enginn rétti upp hendi og því vart hægt að hugsa sér skýrari skilaboð til bæjaryfirvalda um vilja heimamanna þess efnis að gripið verði til aðgerða til að stemma stigu við vexti birkis og lúpínu. Fundarstjórinn, Margrét Björnsdóttir, formaður Umhverfisráðs Kópavogs, lýsti því yfir að Umhverfisráð ásamt Náttúrufræðistofu og garðyrkjustjóra bæjarins myndu í samvinnu móta aðgerðaáætlun sem hefði það að markmiði að takmarka útbreiðslu birkis og lúpínu á holtinu. Aðgerðaáætlunin verður kynnt bæjarbúum áður en framkvæmdir hefjast.