Rannsóknastyrkur frá Alcan

23. september 2005

mynd58.jpgNáttúrufræðistofa Kópavogs hlaut nýverið styrk úr Samfélagssjóði Alcan vegna rannsóknar á Kleifarvatni sem stofan stendur að ásamt Náttúrustofu Reykjaness og samtökunum Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs. Styrkurinn var mjög myndarlegur, ein milljón kr., sem aðstandendur rannsóknarinnar skipta á milli sín. Umhverfisráðuneytið hefur einnig styrkt verkefnið með 300 þúsund kr. Framlagi

Rannsóknaverkefnið í Kleifarvatni sem Alcan styrkir snýr að líffræði vatnsins og eðlis- og efnaþáttum.

Kleifarvatn er um margt mjög athyglisvert stöðuvatn. Það er langstærsta og dýpsta stöðuvatnið á Suðurnesjum og jafnframt í hópi stærstu og dýpstu vatna landsins. Vatnið er um 10 km2 að stærð og dýpi allt að 97 m.

Vatnið er löngu þekkt fyrir umtalsverðar vatnsborðssveiflur, sem geta skipt nokkrum metrum milli ára. Nýlegar mælingar Orkustofnunar staðfesta að vatnsborð lækkaði á tveimur árum um 4,5 m eftir jarðskjálftann þ. 17. júní 2000. Ekkert náttúrulegt stöðuvatn á Íslandi sýnir jafnmiklar breytingar á vatnsborðsstöðu og Kleifarvatn.

Hveravirkni í suðaustanverðu vatninu skapar vatninu einnig sérstöðu. Fá stöðuvötn, ef nokkurt hafa jafnmikla hveravirkni innan vatnsskálarinnar og Kleifarvatn.

Silungur og hornsíli eru í vatninu og stangveiði hefur verið stunduð þar um alllangt skeið á vegum Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar. Fram til 1970 veiddist vel í vatninu en eftir það hefur veiði verið dræm og fiskur sagður bæði smár og illa haldinn. Ekki er vitað með neinni vissu um orsakir þessara breytinga, enda hafa engar rannsóknir verið gerðar þar að lútandi. Tilraunir með sleppingar á fiski í Kleifarvatn hafa ekki borið tilætlaðan árangur. Aðrir möguleikar til fiskræktar í vatninu hafa ekki verið kannaðir til hlítar.

Þekking á lífríki Kleifarvatns er takmörkuð og engar líffræðirannsóknir með nútímalegu sniði hafa verið stundaðar í vatninu í meira en hálfa öld, eða síðan Geir Gígja kannaði þar gróður og smádýralíf á fimmta áratug síðustu aldar.

Mjög áhugavert og löngu tímabært er að ráðast í rannsókn á vistfræði Kleifarvatns. Æskilegt er að hefja sem fyrst ítarlega grunnrannsókn sem tæki til efna- og eðlisþátta og helstu lífveruhópa á borð við þörunga, botndýr, svifdýr og fiska.

Rannsóknir á lífríki og efnafræði Kleifarvatns eru sérstaklega áhugaverðar m.t.t. áforma samtakanna Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs um að græða land með því að bera lífrænan áburð á örfoka mela í námunda við vatnið. Landgræðsluverkefnið veitir einstakt tækifæri til að fylgjast með hugsanlegum áhrifum næringarefnaauðgunar á efnabúskap og lífríki vatnsins.

Engar athuganir hafa áður farið fram hér á landi á áhrifum áburðargjafar á vatnavistkerfi, en rannsóknir á þessu sviði eru mjög umfangsmiklar erlendis, bæði í tengslum við efnamengun frá landbúnaði og þéttbýli og, einkum á allra síðustu árum, í tengslum við næringarefnaauðgun vegna áhrifa loftslagsbreytinga.

Vegna jarðvarmaáhrifa hentar Kleifarvatn einnig vel til rannsókna í því augnamiði að spá fyrir um hugsanleg áhrif loftslagshlýnunar á vatnavistkerfi. Rannsóknir á þessu sviði í Kleifarvatni gætu tengst rannsóknarverkefninu Eurolimpacs sem Náttúrufræðistofa Kópavogs tekur þátt í.

Engar rannsóknir hafa verið gerðar í stöðuvatni hér á landi beinlínis í því skyni að varpa ljósi á áhrif vatnsborðssveiflu á vatnalífríki. Rannsóknir á þessu sviði í Kleifarvatni ættu að gagnast m.a. aðilum sem fást við vatnsaflsvirkjanir og umhverfisáhrif miðlunarlóna.

Fiskirannsóknir í Kleifarvatni eru mjög áhugaverðar, en ekkert er vitað um stofnstærð, vöxt eða aldurssamsetningu, né er vitað á hverju fiskurinn lifir eða hvaða þættir í vatninu kunna að takmarka þrif hans.

Grunnrannsókn á Kleifarvatni mun taka til allra helstu þátta vistkerfisins. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að afla upplýsinga um gerð, eðli og ástand vistkerfisins m.t.t. næringarefna, vatnshita og sýrubúskap og helstu lífveruhópa, þ.m.t. þörunga, botndýra, svifdýra og fiska.

Upplýsingar um framangreind atriði nýtast á marga vegu, til dæmis:
• Varpa ljósi á þætti sem takmarka þrif fiska í vatninu
• Veita vitneskju um möguleika á styrkingu fiskistofna og eflingu veiða
• Varpa ljósi á áhrif miðlunarlóna á vatnalífríki
• Veita vitneskju um áhrif loftslagsbreytinga á vatnalífríki

Rannsóknin miðar öðrum þræði að því að leggja grunn að reglulegri vöktun í vatninu, til dæmis með sýnatöku annað eða þriðja hvert ár, þar sem fylgst yrði með völdum lykilþáttum, einkum næringarefnum, þörungum og svifdýrum.

Vöktun á Kleifarvatni er mjög æskileg í ljósi landgræðsluverkefnisins á vegum Gróðurs fyrir Fólk í Landnámi Ingólfs. Verkefnið hefst í byrjun árs 2006 þegar hrossatað verður borið á tvö svæði við vatnið.

Í sumar hefur verið gerð forkönnun á vatninu og helstu búsvæðum þess. Úrvinnsla er enn skammt á veg komin, en þó er ljóst að á um 8-10 metra dýpi er verulegt gróðurbelti þar sem kransþörungar eru ríkjandi. Þá er ljóst að verulegt magn plöntu- og dýrasvifs er í vatninu. Hér að neðan má sjá myndir af nokkrum þeirrra svifþörunga sem finnast á 0-20 metra dýpi. Myndirnar eru teknar við 100 - 1000x stækkun.

mynd39.jpg

Stjarneskingar (Asterionella sp.) við 400x stækkun

mynd40.jpg

Tafleskingar (Tabellaria sp.) og pípulaga sáldeskingar (Melosira sp.) við 100x stækkun. Rauði ramminn er svo stækkaður 1000x á myndinni fyrir neðan

mynd41.jpg