Hlutverk safna í samfélaginu

20. október 2005

Safnaráð stendur fyrir málþingi um menntunarhlutverk safna á morgun, föstudag 21. október kl. 10-16 í Listasafni Íslands. Málþinginu er ætlað að efla skilning á menntunarhlutverki safna í samfélaginu og hve mikilvægt það er að skapa umhverfi þar sem söfnum er gert kleift að sinna þessu hlutverki á áhrifaríkan hátt.

Söfn gegna mikilvægu hlutverki í símenntun almennings. Þau eru einstakar menntastofnanir, þar sem almenningur getur aflað sér þekkingar út frá eigin forsendum, í návígi við uppruna þekkingarinnar, safngripi og aðrar frumheimildir.

Málþingi Safnaráðs um menntunarhlutverk safna þann 21. október er ætlað að efla skilning á menntunarhlutverki safna í samfélaginu og hve mikilvægt það er að skapa umhverfi þar sem söfnum er gert kleift að sinna þessu hlutverki á áhrifaríkan hátt.

Athygli verður beint að gildi safna í að skapa almenningi lífsgæði í gegnum símenntun og aðgengi að söfnum. Varpað verður ljósi á mikilvægi virks samstarfs safna og annarra menningarstofnana, skólakerfis og menntunarleiða í samfélaginu.

Fyrir hádegi verður fjallað um erlendar fyrirmyndir, hugmyndir og fræðilegar áherslur.

Tveir virtir erlendir fræðimenn á þessu sviði munu flytja erindi.

David Anderson starfar sem Director of Learning and Visitor Services hjá Victoria and Albert Museum í London. Í september 1993 fór breska ríkið þess á leit við Anderson að hann ritaði þjóðarskýrslu um menntunarhlutverk safna. Skýrslan, sem kallast A Common Wealth, var gefin út í janúar 1997 og vakti mikla athygli (smelltu hér til að skoða skýrsluna).

Helene Illeris er Associate Professor hjá The Danish University of Education (Danmarks Pædegogiske Universitet) og er sérþekking hennar m.a. á sviði menntunar á listasöfnum og listsýningum. Fyrirlesarar svara fyrirspurnum að loknum erindum.

Eftir hádegi verður fjallað um hlutverk og stöðu íslenskra safna sem þátttakendur í símenntun almennings.

Erindi munu flytja: Rakel Pétursdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Íslands, Sigrún Kristjánsdóttir, fagstjóri safnfræðslu Þjóðminjasafns Íslands, Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs og Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands.

Pallborðsumræður verða að loknum erindum.

Stjórn málþingsins verður í höndum Ólafs Kvaran, safnstjóra Listasafns Íslands og formanns Safnaráðs.