Sir David Attenborough og kúluskíturinn Fríða

11. nóvember 2005

Fyrir tveimur árum síðan áritaði hinn heimskunni náttúrufræðingur Sir David Attenborough bók sína Heimur spendýranna hér í Náttúrufræðistofu Kópavogs. Við það tækifæri færði starfsfólk Náttúrufræðistofunnar Sir David að gjöf lifandi eintak af kúluskít úr Mývatni. Af David er allt gott að frétta og ekki síður af kúluskítnum hans, sem hann kallar Fríðu!

mynd61.jpgMörgum er sjálfsagt enn í fersku minni þegar Sir David Attenborough, hinn heimskunni náttúrufræðingur áritaði bók sína Heimur spendýranna hér í Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir sléttum tveimur árum síðan. Í tilefni af útgáfu bókarinnar, sem forlagið Iðunn stóð að, hélt Sir David einnig fyrirlestur í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs. Þar fjallaði Sir David um þá byltingu sem hefur átt sér stað í framleiðslu og umfjöllun um náttúrulíf í tengslum við tækniþróun í kvikmyndatökubúnaði.

Starfsmenn Náttúrufræðistofunnar þökkuðu Sir David fyrir heimsóknina með því að færa honum lifandi eintak af kúluskít úr Mývatni. Sir David var afar þakklátur og ekki síður undrandi yfir þessum merkilega þörungi, en aðeins er vitað um eitt annað vatn á jörðinni sem hýsir svo stór, hnattlaga eintök af tegundinni (Aegographila linnaei). Nánar má lesa um þessa sérstöku lífveru hér.

mynd62.jpgNú er að koma út ný bók, Heimur hryggleysingjanna, á vegum Eddu útgáfu eftir Sir David Attenborough. Sigurður Svavarsson útgáfustjóri hjá Eddu útgáfu hefur því verið í sambandi við Sir David að undanförnu. Í einu skeytinu til Sigurðar nefnir Sir David kúluskítinn sem hann fékk að gjöf og fer hann lofsamlegum orðum um hann, eða öllu réttara sagt um hana, því Sir David hefur gefið þörungnum kvennmannsnafnið Freda! Fram kemur hjá Sir David að kúluskíturinn, sem vel má kalla Fríðu á íslensku, þrífst með miklum ágætum í glerskál á miðju borðstofuborði heima hjá honum, gestum og gangandi til mikillar forundrunar. Á meðal gesta á heimili Sir David er sjálfur forstjóri Konunglega Grasagarðsins í Kew!

Á móðurmálinu voru ummæli Sir David um kúluskítinn Fríðu eftirfarandi;

„You may be glad to know that the wonderful green globe from Lake Myvatn which was presented to me when I was last with you is alive and well. We have come to call her Freda. I´m not sure why she has become feminine since I suspect that sex is foreign to her nature, but we regard her as such and she sits looking splendid (if enigmatic) in a glass globe in the middle of our table whenever we have friends to dine. Needless to say, she baffles them all. And that includes the Director of the Royal Botanic Gardens Kew!

Þess má geta að sjálfur var Sir David öldungis gáttaður yfir þessu fyrirbæri, eins og fram kemur í áritun hans á eintaki forstöðumanns Nátturufræðistofunnar á Heimi spendýranna, en þar segir;

"To Hilmar Malmquist with many thanks for introducing me to a completely new botanical phenomena"!!!

Nú mætti ætla að forstöðumaður grasagarðs sem er á heimsminjaskrá UNESCO annarsvegar og fremsti náttúrulífsþáttagerðamaður veraldar hinsvegar, hefðu séð flest það sem markvert þætti. Viðbrögð þessara tveggja manna ættu því að nægja til að sannfæra fólk endanlega um að kúluskítur sé svo sannarlega stórmerkilegur og verðskuldi allt hið besta.