"Sundmannakláðalirfur" í Rauðavatni

09. febrúar 2006

Sundmannakláði eru útbrot sem stafa af varnarviðbrögðum líkamans gegn sundlirfum s.k. fuglablóðagða. Lirfan borar sig inn í húð manna, en í rauninni eru þær á höttunum eftir sundfitum fugla, sem eru lokahýslar ögðunnar.

Þótt nafnið "sundmannakláðalirfa" sé ekki árennilegt, þá er það heldur skiljanlegra en hið latneska heiti ættkvíslarinnar "Trichobilharzia", a.m.k. fyrir þá sem ekki eru innvígðir í sníkjudýrafræðin :o)

Lirfurnar fundust í sýnum af fjörugrjóti, sem unnin voru í tengslum við rannsóknarverkefni vegna framtíðarskipulagningar svæðisins umhverfis vatnið. Sýnin voru tekin s.l. sumar og einungis fundust örfáar lirfur.

Lífsferillinn er í megindráttum á þá leið að egg ögðunnar losna út í vatnið með driti andfugla. Þar klekjast þau og lirfur taka sér bólfestu í sniglum (vatnabobbum) sem eru svokallaðir millihýslar. Þegar vissum þroska er náð yfirgefa lirfurnar svo snigilinn og leita uppi fugla (endur) sem eru lokahýslar og ná þar fullum þroska.

Sundmannakláða hefur orðið vart á nokkrum stöðum á landinu og er sérlega hvimleiður þar sem um er að ræða bað- eða sullaðstöðu. Þannig hefur verið varað sérstaklega við honum í Húsdýragarðinum í Laugardal og í Botnsvatni við Húsavík. Rauðavatn og nágrenni þess er útivistarsvæði sem margir sækja og því er rétt að gera fólki viðvart. Það mætti t.d. gera með upplýsingaspjöldum, þar sem gróðri, vatnalífi og öðrum þáttum lífríkis svæðisins væru einnig gerð skil.

Á heimasíðu Náttúrufræðistofu Norðausturlands er að finna fína umfjöllun um þetta efni. Fyrir þá sem vilja vita meira má benda á grein Karls Skírnissonar og Libusa Kolarova í læknablaðinu.