Álftir - upp á líf og dauða

11. apríl 2006

Á dögunum olli frétt af dauðri álft á Elliðavatni nokkru fjaðrafoki og virðist fuglaflensuspenna fjölmiðla vera orðin slík að ekki megi fugl andast án þess að uppi verði fótur og fit!

Í mánaðarlegri mælingarferð starfsmanna Náttúrufræðistofunnar á efna- og eðlisþáttum í vötnum á höfuðborgarsvæðinu sem farin var þann 11. apríl s.l., kom í ljós að stórt skarð virðist hafa verið höggvið í álftafjölskyldu sem dvalið hefur á Elliðavatni í allan vetur.

Álftafjölskyldan sem um ræðir var samheldin og taldi þann 10. febrúar s.l. tvo fullorðna fugla og fimm unga eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Nú sáust hins vegar ekki nema tveir ungar og bendir það til að síðasti hluti vetrar hafi reynst þeim erfiður.

mynd70.jpgNú höfum við hvorki upplýsingar um aldur né líkamsástand þessa fugls sem svo óvænt komst í fjölmiðla með andláti sínu, en ekki kæmi á óvart að um væri að ræða þann sem saknað er í fjölskyldunni á Elliðavatni. Sé svo þá er afar ólíklegt að hinn alræmdi H5N1 hafi orðið honum að fjörtjóni. Líklegra má telja að þau skötuhjú Þorri og Góa hafi hafi orðið honum of þung í skauti.