Sýning á verkum Guðmundar frá Miðdal

25. apríl 2006

Þann 6. maí næstkomandi hefst glæsileg yfirlitssýning á verkum Guðmundar frá Miðdal í sýningarsölum Gerðarsafns og Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Verið er að leggja lokahönd á undirbúning sýningarinnar sem standa mun frá 6. maí - 16. júní. Sýningunni verður eins og áður er sagt skipt milli Gerðarsafns og Náttúrufræðistofu Kópavogs og munu hinar alþekktu dýrastyttur Guðmundar verða til sýnis í sýningarsal Náttúrufræðistofunnar, en málverk og aðrir munir í Gerðarsafni.

þetta er í annað skiptið sem þessi tvö söfn hafa samvinnu um sýningarhald á listaverkum. Fyrra verkefnið var sýningin „Íslensk samtímalist“ sem haldin var vorið 2005 í Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofunni í tengslum við alþjóðlegt glerlistaþing á vegum Gerðarsafns.

Á þeirri sýningu sýndu sjö íslenskir glerlistamenn verk sín hér í Safnahúsinu, en í Gerðarsafni voru til sýnis glerverk eftir Caroline Swash og Gerði Helgadóttur og í forrými Salarins héngu uppi verk eftir Leif Breiðfjörð. Mikil lukka var með fyrirkomulag þeirrar sýningar, jafnt hjá gestum sem aðstandendum. Þótti gefast sérlega vel að flétta saman listmuni og náttúrugripi, enda er það nú svo að býsna oft sækir listin fyrirmyndir sínar til náttúrunnar.