ELDUR OG VATN!

07. júní 2006

Nátturufræðistofa Kópavogs mun taka þátt í rannsóknum sem fyrirhugaðar eru á áhrifum sinubrunans sem geisuðu á Mýrum í vor sem leið. Aðalumsjón rannsóknanna verður á hendi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Landbúnaðar-háskóli Íslands mun einnig koma að rannsóknunum. Ráðist er í rannsóknirnar fyrir atbeina Sigríður Önnu Þórðardóttur umhverfisráherra. Um þriðjungur kostnaðar við rannsóknirnar, um átta milljón kr., verður greiddur með fjáraukalögum.

Votlendi með grunnum vötnum og tjörnum er umfangsmikil landgerð á svæðinu sem brann og á svæðinu austur af því. Margar fuglategundir sem hafast þarna við byggja afkomu sína að umtalsverðu leyti á hryggleysingjum sem lifa í votlendinu, m.a. Á rykmýi, vatnaflóm og vatnabobbum.

Svo vel vill til að Náttúrufræðistofa Kópavogs býr yfir nokkurra ára gömlum gögnum um lífríki, efna- og eðlisþætti í vötnum sem lentu innan brunasvæðisins og utan þess. Þar eru því fyrir hendi dýrmætar bakgrunnsupplýsingar fyrir sinubrunanna.

Ekki er vitað til þess að áhrif sinubruna á vatnalífríki hafi verið rannsökuð áður hér á landi. Rannsóknir erlendis á áhrifum skógar- og sinubruna á vatnavistkerfi eru einnig tiltölulega fágætar. Það er helst að rannsóknum hafi verið sinnt á lífríki straumvatna í Bandaríkjunum og Kanada þar sem skógar klæða vatnasviðin að verulegu leyti. Fyrirhugaðar rannsóknir á Mýrum eru því mjög áhugaverðar í vísindalegu tilliti.

Rannsökuð verða þrjú vötn að lágmarki innan og utan brunasvæðisins, m.a. Með hliðsjón af mismunandi áhrifum reyks og sinubruna eftir lengdarási svæðisins. Einnig verður tekið tillit til náttúrulegs breytileika á svæðinu, m.a. Vegna hugsanlegra áhrifa sjávarseltu. Vötnin utan brunasvæðisins þjóna sem viðmið.

Nánar má lesa um fyrirhugaðar rannsóknir í heild í: Mýraeldar 2006 Áætlun um rannsóknir á áhrifum eldanna á lífríki. Maí 2006. 813 Kb.