Aðmírálsfiðrildi víða um land

06. júlí 2006

Undanfarið hefur borið mikið á stórum og skrautlegum fiðrildum víða um land. Um er að ræða aðmírálsfiðrildi, sem hafa verið reglulegir flækingar hér á landi undanfarin ár. Þó ráku menn upp stór augu þegar menn gengu fram á þau á Sveinstindi við Langasjó nú fyrir skömmu.

Undanfarnar vikur hafa aðmírálsfiðrildi sést víða um land. Samkvæmt lauslegri könnun okkar hefur fiðrildanna orðið vart allt frá Húsavík, austur og suður um land og allt vestur í Stykkishólm. Fiðrildin vekja hvarvetna mikla athygli þar sem þau eru miklu stærri og litskrúðugri en þau fiðrildi sem við eigum að venjast, sem flest hver eru í sauðalitunum.

Helgina 24-25 júní stóð Ferðafélag Íslands fyrir ferð að Langasjó, í samstarfi við Landvernd. Siglt var um vatnið endilangt og land tekið á þremur stöðum og gengið um Fögrufjallasvæðið. Ferðin tókst í alla staði vel og nutu ferðalangar blíðskaparveðurs og náttúrufegurðar í ríkum mæli.

Eitt af því sem verulega kom á óvart var að á Sveinstindi, í tæplega 1100 m hæð yfir sjó, og uppi á fellum í Fögrufjöllum sáust allmörg aðmírálsfiðrildi á flugi. Vakti þetta að vonum athygli, því þó fiðrildin finnist ekki ósjaldan á láglendi þar sem allt stendur í blóma áttu menn sannarlega ekki von á þeim langt inni á hálendinu, hátt til fjalla og nærri jöklum. Eina blómstrandi háplantan á þessu svæði sem aðmírálsfiðrildin sáust á var vetrarblóm (Saxifraga oppositifolia). En hvort það blómstur gagnist aðmírálsfiðrildum er önnur saga.