Eggjasafn sett upp til sýningar

21. september 2006

Nú er verið að koma hluta eggjasafns Náttúrufræðistofu Kópavogs í sýningarhæft ástand. Sýnd eru egg fugla sem sjá má á safninu auk eggja nokkurra tegunda sem teljast fágæt eða á annan hátt athyglisverð s.s. sökum stærðar/smæðar.

Á Náttúrufræðistofu Kópavogs er að finna nokkurt eggjasafn. Til sýnis verða egg margra þeirra fugla sem þegar eiga sitt sæti í sýningarsal okkar sem og önnur egg sem gaman er að skoða. Þarna verður m.a. að finna egg ýmissa máfa og sjófugla, vaðfugla, anda, brúsa og ránfugla.

Fjölbreytileiki í lögun og lit eggjanna mun trúlega vekja nokkra athygli. Þannig verður hægt að sjá egg álftar og músarrindils hlið við hlið, en allt hreiður músarrindilsins ásamt fuglinum sjálfum mundi rúmast innan í álftaregginu!