Ágengar og framandi tegundir - NOBANIS -

07. desember 2006

Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á gagnagrunn þar sem haldið er utan um upplýsingar um svokallaðar ÁGENGAR OG FRAMANDI tegundir (Invasive alien species) í N-Evrópu.

Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og er samstarfsverkefni Norðurlanda, Eystrasaltslanda, Rússlands, Póllands og Þýskalands. Megintilgangur verkefnisins er að taka saman upplýsingar um framandi tegundir í N-Evrópu og gera þær aðgengilegar á veraldarvefnum.

Náttúrufræðistofnun Íslands er umsjónaraðili NOBANIS verkefnisins hér á landi, en henni til halds og trausts eru ýmsar rannsóknastofnanir, þ. á m. er Náttúrufræðistofa Kópavogs sem veitir ráðgjöf á sviði ferskvatnslífvera.

Á heimasíðu verkefnisins eru ágengar og framandi tegundir skilgreindar á eftirfarandi hátt: Invasive alien species (IAS) (or alien invasive species) - an alien species whose introduction and/or spread threaten biological diversity
- sem útleggst einhvern vegin svona: Framandi tegund, hverrar innflutningur eða útbreiðsla ógnar líffræðilegum fjölbreytileika.

Alls eru nú eftirfarandi sjö tegundir á þessum lista fyrir Íslands hönd:

Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis)
Búrasnigill (Physella acuta)
Húshumla (Bombus lucorum)
Hæruburst (Campylopus introflexus)
Minkur (Mustela vison)
Skógarkerfill (Anthriscus sylvestris)
Spánarsnigill (Arion lusitanicus)

Þrátt fyrir að efnið sé enn í vinnslu er verulegt magn upplýsinga er nú þegar aðgengilegt á heimasíðu verkefnisins www.nobanis.org