Munið eftir smáfuglunum!

12. janúar 2007

Í anddyri Safnahússins eru nú til sýnis smáfuglar af ýmsum gerðum sem ratað hafa hingað norður í Atlantshaf og sest á skerið. Sumar tegundirnar eru svokallaðir flækingar, en aðrar virðast ætla að setjast að og geta þá kallast nýbúar.

Á dögunum bárust Náttúrufræðistofunni nokkrir nýir fuglar úr uppstoppun. Bæði er um að ræða fugla sem Náttúrufræðistofan átti en einnig lagði uppstopparinn, Brynja Davíðsdóttir, til nokkra fugla úr eigin fórum. Flestir fuglanna eru spörfuglar, bæði algengir íslenskir fuglar sem og flækingar. Þá er loks komið í hús eintak af hinum ástkæra fugli, lóunni sem okkur hefur sárlega vantað fram til þessa.