Einum fiski færra...

28. janúar 2007

Stóra kuðungableikjan sem glatt hefur augað í bleikjubúrinu okkar undanfarið hálft annað ár er nú öll. Er þar skarð fyrir skildi því þrátt fyrir drungalegt litarhaft var þetta gullfallegur fiskur.

Kuðungaleikja þessi komst í okkar hendur haustið 2005 þegar við vorum við rannsóknarveiðar í Þingvallavatni. Hún hafði flækt sig lauslega á kjafti í neti og var því sem næst ósærð. Var því ákveðið að taka hana með og sjá hvort hún plumaði sig í búri hjá okkur, enda höfum við reynt að hafa sem flest afbrigði Þingvallableikju til sýnis. Var fiskurinn fljótur að jafna sig en þegar kom að því að fóðra hann versnaði í málinu því hann harðneitaði að taka nokkurt fóður.

Það er reyndar algengt að það taki fiska eina til tvær vikur að taka fóður svo vel sé, en þessi sló öll met og það var ekki fyrr en eftir níu mánuði sem hann var orðin nægilega svangur til að taka rækjur, sem eru aðal fóður fiskanna í búrunum okkar. Þrátt fyrir þennan ótrúlega langa tíma var fiskurinn í furðu góðum holdum - var að vísu orðinn nokkuð kviðdreginn en alls ekki horaðri en margur fiskur sem veiddur hefur verið á stöng.

Þegar hann var loks kominn á bragðið át hann með bestu lyst, þar til fyrir nokkrum dögum, þegar greinilegt var að eitthvað hrjáði fiskinn. Virtist hann hafa misst eiginleikann til að stýra flotvægi sínu og flaut upp ef hann hætti að synda. Var því ákveðið að slá hann af, enda truflaði þetta athafnir fisksins á alla vegu og kom meðal annars í veg fyrir að hann gæti étið.

Eins og við er að búast, þegar jafn athyglisverður fiskur og þessi gefur upp öndina á svona stað, voru framkvæmdar svolitlar rannsóknir á honum eftir andlátið. Bleikjan reyndist vera hængur, um níu ára gamall og virtist í fínu formi ef frá er skilið að hann var nokkuð sýktur af tálknalús og að sundmaginn var mjög þaninn.