Friðun kúluskíts í Mývatni vekur athygli í Japan

14. febrúar 2007

Í gær fjallaði víðlesið japanskt dagblað ýtarlega um kúluskít á Íslandi og friðun hans í Mývatni. Í greininni er m.a. vakin athygli á því að umhverfisráðherra Íslands, sem þá var frú Sigríður Anna Þórðardóttir, og sendiráðunautur Japans á Íslandi, Hr. Hitoshi Abe og hans frú, voru viðstödd vígslu kúluskítsbúrsins á Náttúrufræðistofu Kópavogs.

mynd81.jpgÍ Japan er litið á kúluskít sem þjóðargersemi og flestir hafa einhverja vitneskju um tilvist hans og hvað hann er. Hér á landi hafa augu fólks verið að opnast fyrir því að um er að ræða eitthvað alveg sérstakt og var það loks rækilega staðfest þegar fyrrverandi umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir, stóð að friðun kúluskíts í Mývatni.

Í umræddri grein er fjallað um þessa friðun og þá athygli sem kúluskíturinn hefur fengið á undanförnum árum hér á landi. Þar er m.a. talað við Isamu Wakana, sem er helsti kúluskítssérfræðingur heims og telur hann að sá áhugi sem Íslendingar hafa sýnt þessu sérstæða fyrirbæri muni hafa jákvæð áhrif fyrir áframhaldandi verndun kúluskíts í Japan.

Hér að neðan er stutt samantekt úr greininni.

mynd82.jpgÁrið 2006 var kúluskítur, hið kúlulaga form grænþörungsins Aegagropila Linnaei friðaður af íslenskum stjórnvöldum. Þetta sama form kúluskíts finnst einnig í Akanvatni á Hokkaido í Japan og telst þar sérstök þjóðargersemi. Ákvörðun Íslendinga um að friða kúluskítinn sýnir að hann hefur verndargildi á heimsvísu.

Dr. Isamu Wakana, formaður menntamálanefndar Kushiroborgar, hefur frá árinu 1999 tekið þátt í rannsóknum á Mývatni, heimkynnum kúluskíts á Íslandi, í samvinnu við Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn. Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur til sýnis lifandi kúluskít í búri, sem gefur til kynna og ýtir undir aukinn áhuga á kúluskít meðal þjóðarinnar.

Fyrirhugað er frekara framhald á hinni fjölþjóðlegu samvinnu er varðar verndun og fræðslu, auk vísindarannsókna á kúluskít.