Borgarholtið heldur útlitinu!

19. febrúar 2007

Mörgum er e.t.v. enn í fersku minni fjölmennt málþing sem haldið var í september 2005 hér í Safnahúsinu um framtíð Borgarholts í Kópavogi. Á fundinum kom fram einhugur um að grípa þyrfti til aðgerða til að koma í veg fyrir að Borgarholt með sæbörðum grágrýtishnullungum hyrfi mönnum sjónum í ört vaxandi trjágróður. Nú hefur aðgerðaráætlun í þessu skyni verið samþykkt af bæjarráði Kópavogs.

Borgarholt í Kópavogi með fagurskapaða Kópavogskirkju á kollinum og sæbarða grágrýtishnullunga allt í kring er vafalítið eitt helsta kennileiti Kópavogs. Holtið var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981 vegna jarðfræðilegrar sérstöðu, en á holtinu gefur að líta hvað gleggstar minjar á höfuðborgarsvæðinu um hæstu sjávarstöðu á Suðvesturlandi frá lokum síðustu ísaldar.

mynd55grunnmynd1.jpgEftir að jöklar hopuðu fyrir um tíu þúsund árum, var holtið sker úti í sjó sem brimið svarf og vann á þannig allt smálegt skolaðist burtu en eftir sátu þvegnir og sléttir hnullungarnir. Frá lokum ísaldar hefur land svo lengst af risið þannig að í dag stendur holtið í um 45 m hæð yfir sjó. Náttúrufræðilegt gildi holtsins felst einnig í því að þar er óvenjumikið af villtum háplöntutegundum, eða um fjórðungur af íslensku flórunni. Þá vaxa þar um 100 tegundir af mosum.

Í kjölfar rannsóknar sumarið 2003 á gróðri í Borgarholti sem Náttúrufræðistofa Kópavogs og garðyrkjustjóri Kópavogs áttu frumkvæði að og framkvæmd var af Náttúrufræðistofnun Íslands, varð ljóst að ef ekkert yrði aðhafst myndi hið grjóti prýdda holt fyrr en seinna hverfa sjónum vegna trjágróðurs og verða svipað ásýndar og Öskjuhlíð. Trjágróðurinn sem hér um ræðir er að mestu birki, sem að töluverðu leyti er komið úr nærliggjandi görðum. Þá hefur lúpína einnig fest rætur á holtinu.

Í tilefni af gróðurrannsókn Náttúrufræðistofnunar Íslands var haldið málþing í september 2005 í Safnahúsinu um framtíð Borgarholtsins. Megintilgangur málþingsins var að vekja athygli og fá fram viðbrögð hjá fólki við þeirri gróðurframvindu sem fyrirsjáanleg er á Borgarholtinu á næstu árum og þeim afleiðingum sem gróðurframvindan mun hafa á útlit holtsins og náttúrufarslegt gildi.

Mæting á þingið var mjög góð og sóttu það ríflega 70 manns. Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri setti þingið og lýsti m.a. skoðun sinni að vernda bæri Borgarholtið með jarðfræðilega sérstöðu þess að leiðarljósi. Flutt voru þrjú framsöguerindi og að þeim loknum boðið upp á fyrirspurnir og umræður. Fundarmenn voru nær einhuga um aðgerðir til að standa vörð um Borgarholtið. Fundarstjórinn, Margrét Björnsdóttir formaður Umhverfisráðs Kópavogs, lýsti því yfir að Umhverfisráð ásamt Náttúrufræðistofu og garðyrkjustjóra bæjarins myndu móta aðgerðaáætlun sem hefði það að markmiði að takmarka útbreiðslu birkis og lúpínu á holtinu.

Aðgerðaáætlun með tillögum garðyrkjustjóra og forstöðumanns Náttúrufræðistofu Kópavogs um að hefta sókn trjágróðurs inn á friðlýst svæði Borgarholts var samþykkt af umhverfsiráði Kópavogs nú í janúar 2007 og á fundi 8. febrúar sl. samþykkti bæjarráð Kópavogs framlagða tillögu.

Í tillögununum felst að reynt verði að sporna við óheftum vexti sjálfsáins trjágróðurs, en mismikið þó og er holtinu skipt í þrjú svæði í þessu skyni:
1. Svæði næst kirkjunni (70-100 m).Þar eru grjóthnullungar og klappir mest áberandi og tekur til um 80% holtsins. Allur þessi hluti er innan marka friðlýsingar. Trjágróður á þessu svæði verði upprættur að mestu.
2. Svæði neðar í holtinu (ytri jaðar svæðis nr. 1.). Minna er um grjót hér og svæðið misjafnlega gróið. Það er að mestu leyti á friðlýstu svæði, en hluti á jaðarsvæði. Trjágróðri þarna verði haldið í skefjum, þó í minna mæli en á svæði 1.
3. Svæði fjærst kirkjunni. Þetta svæði nær m.a. að lóðarmörkun við Hraunbraut, Kastalagerði og Borgarholtsbraut og er mjög vaxið trjágróðri. Hluti þess er á jaðarsvæðinu og verður gróður að mestu leyti látinn vera.

Tilhögun verksins verður með með þeim hætti að klippt verður á rætur stærri birkiplantna en minni plöntur rifnar upp með rótum, þó þannig að ekki hljótist rask af. Verkið verður unnið af starfsmönnum Náttúrufræðistofu Kópavogs og garðyrkjudeildar bæjarins og verður hafist handa fljótlega og unnið fram á vor. Í sumar verði aftur farið yfir svæðið og fjarlægðar smáplöntur. Næstu sumur verði síðan um yfirferð að ræða.