Ár liðið frá Mýraeldum

03. apríl 2007

Þann 30. mars 2007 var ár liðið frá því að hinir miklu sinueldar komu upp á Mýrum í Borgarbyggð. Eldarnir geisuðu með hléum í þrjá sólarhringa og fóru yfir 72 km2 landsvæði. Um er að ræða mestu sinuelda sem þekktir eru í Íslandssögunni. Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands standa að rannsóknum á Mýrum vegna brunans og liggja fyrstu niðurstöður nú fyrir.

Þann 30. mars 2007 var ár liðið frá því að hinir miklu sinueldar komu upp á Mýrum í Borgarbyggð. Eldarnir geisuðu með hléum í þrjá sólarhringa og fóru yfir 72 km2 landsvæði. Um er að ræða mestu sinuelda sem þekktir eru í Íslandssögunni. Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands standa að rannsóknum á Mýrum vegna brunans.

MM-eldur_a_Myrum.jpgFyrstu niðurstöður rannsóknanna liggja nú fyrir og var um þær fjallað á Fræðaþingi landbúnaðarins dagana 16.-17. febrúar 2007 á Hótel Sögu og í húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Þá voru rannsóknirnar kynntar heimamönnum á Mýrum á sérstökum fundi þann 28. mars sl. í félagsheimilinu Lyngbrekku, en Rótarýklúbbur Borgarness og Borgarbyggð stóðu fyrir fundinum sem var vel sóttur.

Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands er gerð grein fyrir meginniðurstöðum í öllum helstu rannsóknaþáttum verkefnisins.

Rannsóknir Náttúrfræðistofu Kópavogs lúta annars vegar að áhrifum Mýraelda á efna- og eðlisþætti ferskvatns og hins vegar að áhrifum á vatnalífríki:

Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson. 2007. Áhrif Mýraelda á eðlis- og efnaþætti vatns sumarið 2006. Fræðaþing landbúnaðarins 2007: 349 356.

Haraldur R. Ingvason, Finnur Ingimarsson, Stefán Már Stefánsson og Hilmar J. Malmquist. 2007. Áhrif Mýraelda á smádýralíf í vötnum sumarið 2006. Fræðaþing landbúnaðarins 2007: 440 445.

Helstu niðurstöður hvað varðar rannsóknir Náttúrufræðistofunnar eru:
Mæliniðurstöður á eðlis- og efnaþáttum í vötnum á Mýrum sumarið 2006 benda ekki til þess að Mýraeldar hafi haft umfangsmikil skammtímaáhrif á vatnsgæði. Styrkur langflestra efna í vötnum er áþekkur jafnt á óbrunnu sem brunnu svæði og jafnframt svipaður því sem mælst hefur í vötnum á svæðinu fyrir brunann. Efnastyrkur var einnig í stórum dráttum keimlíkur því sem mælst hefur í öðrum grunnum vötnum á landinu. Vísbendingar eru þó um aukinn styrk nokkurra efna í vötnum á brunnum svæðum, sem lýsir sér í hærri rafleiðni og einkum meiri basavirkni en í vötnum á óbrunnu svæði. Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að skera úr um ástæður þessara áhrifa.

Niðurstöður rannsókna á smádýralífi í vötnunum benda ekki til þess að um nein merkjanleg skammtímaáhrif sé að ræða af völdum brunans. Enda þótt ekki líti út fyrir að áhrifa Mýraelda hafi gætt á smádýralífríki í vötnunum, a.m.k. ekki til skamms tíma litið, kom fram munur í dýralífi milli vatna á óbrunnu svæði og brunnu. Þannig veiddist mun meira af hornsílum í vötnum á brunnu svæði, en fjöldi krabbadýra var hins vegar öllu minni en í vötnum á óbrunnu svæði. Of snemmt er að kveða upp úr um ástæður þessa munar, en líklegast er um náttúrulegan breytileika að ræða sem tengist ekki Mýraeldum.