„Frjó eru vötn sem renna undan hraunum“

24. apríl 2007

Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, flytur erindi á Hrafnaþingi þar sem fjallað verður um tengsl lífríkis við vatna- og jarðfræðilega þætti í íslenskum stöðuvötnum. Sjónum verður sérstaklega beint að lindavötnum.

Hrafnaþing er heiti á fræðsluerindum Náttúrufræðistofnunar. Erindin eru haldin í sal Möguleikhússins við Hlemmtorg annan hvern miðvikudag yfir vetrartímann og hefjast kl 12:15.

„Frjó eru vötn sem renna undan hraunum“ ku vera fornt orðtak og lýsandi fyrir þá staðreynd, sem staðfest hefur verið með síðari tíma rannsóknum, að lífvænleiki og gróska er jafnan meiri í vötnum af lindatoga en af annarri gerð. Þeir þættir sem helst stuðla að þessu eru m.a. hreinleiki vatnsins, efnaríkt innihald og stöðugleiki í hitastigi og vatnsbúskap. Fleiri þættir koma hér við sögu og ber sérstaklega að nefna rúmfræðilega eiginleika hraungrýtisins, sem virðast m.a. hafa ráðið nokkru um þróun dýra hér á landi, jafnvel um tilurð tegunda sem hvergi þekkjast annars staðar á jörðinni.

Erindið byggist að miklu leyti á upplýsingum í gagnagrunni Yfirlitskönnunar á lífríki íslenskra stöðuvatna, sem er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofu Kópavogs, Líffræðistofnunar Háskólans, Hólaskóla og Veiðimálastofnunar.

Frekari upplýsingar um erindið er að finna á heimasíðu Hrafnaþings á vef Náttúrufræðistofnunnar Íslands.