Góð þátttaka var á sumarnámskeiðum Náttúrufræðistofunnar í náttúrufræðum sem haldin voru dagana 11.-15. júní og 18.-22. júní. Fullt var á báðum námskeiðum sem sniðin eru fyrir 11-13 ára krakka.
Markmið sumarnámskeiðanna er að efla þekkingu í náttúrufræðum og veita þátttakendum innsýn í vísindaleg vinnubrögð. Farið er í vettvangsferðir og m.a. rannsakað vatna- og fjörulífríki í Kópavogi og nágrenni og spáð í gróður og skordýralíf. Á rannsóknastofu Náttúrufræðistofunnar eru sýni mæld og skoðuð í víðsjá og krakkarnir halda vinnubækur þar sem rannsóknaniðurstöður eru skráðar.
Námskeiðin standa yfir milli kl. 10-15 hvern dag og mæta þátttakendur með nesti, stígvél og hlífðarföt. Leiðbeinendur eru starfsmenn á Náttúrufræðistofunni.
Námskeiðsgjald er 7.000 kr. en veittur er 4.000 kr. systkinaafsláttur.
Fjöldi þátttakenda takmarkast við 12 krakka á hvoru námskeiði og helgast það af rými á rannsóknastofu.




